Dagsetning Tilvísun
17. apríl 1997 796/97
Bætur vegna björgunar skips
Vísað er til símbréfs yðar dags, 19. desember 1996, þar sem þér óskið álits ríkisskattstjóra á því, hvort dæmdar bætur samkvæmt dómi Hæstaréttar vegna björgunar skips séu skattskyldar samkvæmt lögum um virðisaukaskatt.
Skattskylda samkvæmt lögum um virðisaukaskatt nær til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, nema starfsemin sé sérstaklega undanþegin. Að áliti ríkis- skattstjóra tekur ekkert undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laganna til björgunarþjónustu við skip. Samkvæmt þeirri niðurstöðu ber bjargendum skipa, sem taka þóknun fyrir þjónustu sína að innheimta og skila virðisaukaskatti af endurgjaldinu. Skattskyldan nær til allra sem inna björgunarþjónustu af hendi í atvinnuskyni, þ.e. gegn endurgjaldi (björgunarlaunum).
Ef ekki hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts í dómsniðurstöðu verður að ætla að ef um virðisaukaskattsskylda þjónustu hefur verið að ræða, þá beri að líta svo á að upphæðin sé án virðisaukaskatts.
Beðist er velvirðingar á því hversu lengi hefur dregist að svara erindi yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir