Dagsetning                       Tilvísun
23. apríl 1997                            799/97

 

Útflutningur hrossa – þjálfun og umhirða

Vísað er til bréfs yðar, dags. 15. apríl , varðandi virðisaukaskatt á selda þjónustu samfara sölu á hrossi úr landi til erlendra aðila, sbr. hjálagt erindi frá F til yðar.

Í erindi F kemur fram að reiðskólakeðja í Þýskalandi hefur keypt hross af bændum í umdæmi N. Munu kaupin jafnan gerð með þeim hætti að samið er um tiltekið verð fyrir ótamin hross (90.000 kr.) og jafnháa fjárhæð fyrir þjálfun og umhirðu hrossanna. Kaupendur munu hafa óskað eftir því að þessum fjárhæðum sé haldið aðskyldum með því að gefa út hvorn reikninginn fyrir sinn þáttinn. Jafnframt kemur fram í dæmi sem er tekið að á útflutningsskýrslu og til tollverðs í Þýskalandi sé einungis talið verðið á hrossinu. Síðan er tekið fram í erindinu að þess hafi verið krafist af skattstofunni að innheimtur sé virðisaukaskattur af þjálfun og umhirðu hrossanna en slíkt sé ekki gert í öðrum skattumdæmum.

Í bréfi yðar, hr. skattstjóri, óskið þér eftir afstöðu ríkisskattstjóra til þessa máls.

Til svars skal fyrst tekið fram að ríkisskattstjóri hefur áður gefið út álit varðandi útflutning hrossa sbr. bréf dags. 3. júní 1993 og bréf dags. 3. október 1996. Í þessum bréfum kemur fram að sala á þjónustu sem tengist útflutningi á hrossum sé undanþegin virðisaukaskatti skv. 3. tölul. 12. gr. virðisaukaskattslaga enda komi hún fram á útflutningsskýrslu og verð hennar sé tilgreint sérstaklega sem þáttur í heildarútflutningsverði. Vísast jafnframt í því sambandi til 20. gr. reglugerðar um bókhald og tekjuskráningu, nr. 50/1993, þar sem kveðið er á um skyldu til að varðveita útflutningsskýrslu eða önnur sambærileg gögn í bókhaldi til sönnunar á undanþágu.

Að mati ríkisskattstjóra leikur ekki vafi á að tamning á hrossi fellur undir ofangreinda reglu enda hækkar verðmæti hinnar útfluttu vöru við hana. Tamning er því eðlilegur þáttur í viðskiptaverði við útflutning á hrossi og gildir þá einu hvort verðið kemur fram einum eða tveimur reikningum þótt eðlilegra sé að gefa út einn reikning. Jafnframt er ljóst að skv. ákvæðum tollalaga, sbr. 8., 9. og 149. gr. þeirra, að á útflutningsskýrslu á að tilgreina heildarverðmæti eða viðskiptaverð vörunnar sem flutt er út, þ.e. það verð sem raunverulega er greitt eða greiða ber fyrir hana. Það er því beinlínis rangt að gefa ekki upp verð vörunnar með þeim eiginleikum sem hún felur í sér við útflutning. Í þessum tilvikum er verið að flytja úr landi tamin hross en ekki ótamin og á tilgreint verð á útflutningsskýrslu að endurspegla það.

Miðað við framkomnar upplýsingar virðist sá hluti hrossverðsins sem lýtur að tamningu ekki hafa komið fram á útflutningsskýrslu. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum voru fyrirmæli skattstjóra því í samræmi við gildandi reglur enda óheimilt að telja sölu til undanþeginnar veltu nema seljandi geti stutt það með lögboðnum skjölum.

Að gefnu tilefni þykir rétt að senda afrit af bréfi þessu og erindi F til embættis ríkistollstjóra til nánari skoðunar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Jón H. Steingrímsson

 

Hjálagt:

Bréf ríkisskattstjóra dags. 3.júní 1993 og 3. október 1996

 

Afrit:

Ríkistollstjóri
F