Dagsetning Tilvísun
30. maí 1997 800/97
Virðisaukaskattur – innheimtuþjónusta banka, seðilgjald
Vísað er til bréfs yðar, dags. 21. febrúar sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort svokallað seðilgjald sem áformað er að innheimta af viðskiptavinum H og R teljist vera bankakostnaður sem undanþeginn sé virðisaukaskatti.
Umrætt seðilgjald er kostnaður við útgáfu og dreifingu reikninga sem viðskiptavinum fyrirtækjanna er gert að greiða ef þeir kjósa að greiða öðruvísi en með boð- eða beingreiðslum, þ.e. ef þeir fá senda seðla og greiða samkvæmt þeim. Samkvæmt upplýsingum yðar liggja fyrir samningsdrög sem gera ráð fyrir að L annist gerð og útsendingu greiðsluseðils sem verður sameiginlegur fyrir fyrirtækin, sbr. heimild frá ríkisskattstjóra í bréfi dags. 31. janúar sl. Áður hafa fyrirtækin sjálf annast gerð og útgáfu A-gíróseðla hvort í sínu lagi. Samkvæmt þessum samningsdrögum fær L ákveðið gjald á hvern greiðsluseðil sem greiddur eru í bankaútibúum fyrir þá þjónustu að sjá um útgáfu og dreifingu seðlanna ásamt greiðslumiðlun.
Hingað til hefur sá kostnaður sem nú er áformað að endurheimta með seðilgjaldi komið fram í skattverði fyrirtækjanna. Útgáfa og dreifing á gíró- eða greiðsluseðlum telst vera eðlilegur þáttur í kostnaði fyrirtækjanna og er því hluti af skattverði þeirra skv. 7. gr. virðisaukaskattslaga. Breytir þar engu um hvort þessi kostnaður er endurheimtur í gegnum almennt verð þjónustunnar eða með sérstöku gjaldi, sbr. 2. tölul. tilvitnaðrar greinar. Sama gildir þó þriðji aðili annist þá þjónustu að gefa út og dreifa seðlunum. Að áliti ríkisskattstjóra getur umræddur samningur við L því ekki breytt þeirri staðreynd að seðilgjaldið er endurgjald sem viðskiptavinir greiða orkuveitunum fyrir útgáfu og sendingu lögboðinna reikninga. Greiðsla seðilgjalds getur ekki talist vera greiðsla frá viðskiptavinum til bankans enda eru þeir ekki að kaupa þjónustu af bankanum né hafa þeir gert samning þar um. Öðru máli gegnir hins vegar um þau tilvik þegar viðskiptavinir kaupa C-gíróseðil í banka til að koma til skila greiðslu enda er þá um að ræða hreina greiðslumiðlun af hálfu bankans.
Sú þjónusta að útbúa og senda viðskiptavinum gíróseðla eða greiðsluseðla fellur ekki undir undanþágu vegna bankaþjónustu í 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattsslaga og gildir þá einu hvor henni er sinnt af bankastofnun eða öðrum aðila.
Samkvæmt framansögðu er niðurstaða ríkisskattstjóra þessi:
- Seðilgjald sem áformað er að innheimta af viðskiptavinum H og R er ótvírætt hluti af skattverði fyrirtækjanna og skal birtast á reikningi sem slíkt.
- L skal miðað við fyrirliggjandi samningsdrög gera orkuveitunum sérstakan reikning með virðisaukaskatti fyrir þeirri þjónustu sem veitt er skv. samningnum eftir nánara samkomulagi milli aðila um fyrirkomulag greiðslna.
Ríkisskattstjóri vill að síðustu taka eftirfarandi fram. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar um bókhald og tekjuskráningu er þjónustusölum skylt að gefa út reikning eigi sjaldnar en í lok hvers mánaðar. Mánaðarleg útgáfa umræddra greiðsluseðla/reikninga mun því uppfylla þetta ákvæði. Það er jafn ljóst að falli útgáfa reiknings niður ef aðili kýs að greiða með boð- eða beingreiðslu, að þá er um að ræða frávik frá gildandi reglum. Því verður að líta svo á að í erindinu felist ósk um frávik í tekjuskráningu fyrirtækjanna frá ákvæði 3. gr. á grundvelli þess að fyrir liggi annað jafn öruggt kerfi sem tryggir að unnt sé að sannreyna að allar tekjur komi fram. Ríkisskattstjóri getur með vísan til 10. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila fallist á frávik frá tekjuskráningu skv. 3. gr. með eftirfarandi skilyrðum:
- Uppgjörsreikningur sé gefinn út a.m.k. í lok hvers árs.
- Viðskiptavinir fái reikning oftar, allt að mánaðarlega, óski þeir þess.
- Tekjuskráning vegna greiðslukorta verði á grundvelli sérstakra mánaðarlegra yfirlita frá greiðslukortafyrirtækjum.
- Tekjuskráning vegna millifærslna af bankareikningum verði á grundvelli sérstakra mánaðarlegra yfirlita frá bönkum.
Heimild þessi gildir til 31. desember 1998. Óska verður eftir framlengingu heimildarinnar með 60 daga fyrirvara.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Jón H. Steingrímsson
Afrit:
E
J
B
Jón Guðmundsson, fjármálaráðuneyti