Dagsetning Tilvísun
24. júní 1997 802/97
Heimild til þess að sjá um framtal, skil og uppgjör virðisaukaskatts sölufólks.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. maí sl., þar sem þér óskið eftir heimild til að fá að sjá um framtal, skil og uppgjör þess virðisaukaskatts sem sölufólk yðar ber að innheimta af sinni þjónustu.
Samkvæmt 13. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti getur ríkisskattstjóri heimilað aðila að sjá um framtal, skil og uppgjör virðisaukaskatts af skattskyldri sölu á vöru og þjónustu annars aðila enda hafi aðilar samið um slíka tilhögun skriflega. Í ákvæði kemur jafnframt fram að heimild ríkisskattstjóra geti verið tímabundin og háð öðrum skilyrðum sem hann setur.
Ríkisskattstjóri hefur ákveðið að veita yður umbeðna heimild um samskráningu. Skilyrði er þó að hún taki einungis til aðila sem selja vörur yðar en eru ekki jafnframt í annarri starfsemi. Auk þess skulu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
1. Fyrir liggi skriflegir samningar milli yðar og viðkomandi aðila (sölufólks) þar sem kemur fram að þér munið sjá um framtal, skil og uppgjör virðisaukaskatts þeirra.
2. Skattstjóra sé tilkynnt um hvaða aðilar (nafn, kennitala og heimilisfang) falli undir samskráninguna. Allar breytingar þar á séu tilkynntar skattstjóra án tafar.
3. Bókhaldi sé hagað þannig að skattyfirvöld geti jafnan gengið úr skugga um réttmæti virðisaukaskattsskýrslna og þeirra uppgjörsgagna og fylgiskjala sem að baki liggja, þ.m.t. samninga við sölufólk.
4. Skattstjóra sé sent á gjalddaga yfirlit um hlut hvers einstaks aðila í fjárhæðum á virðisaukaskattsskýrslu.
Framkvæmd á samskráningunni skal vera með þeim hætti að þegar þér tilkynnið skattstjóra um skráningu á virðisaukaskattsskrá látið þér fylgja lista yfir þá aðila sem beðið er um samskráningu fyrir. Auk þess skal ljósrit bréfs þessa fylgja tilkynningu.
Tekið skal fram að ríkisskattstjóri gerir engar athugasemdir við það að þér sjáið um útgáfu sölureikninga fyrir umrædda aðila enda sé fyrirkomulaginu lýst í samningi við þá.
Heimild þessi gildir til 1. júlí 1999 en fyrir þann tíma skal sækja um endurnýjun á henni sé þess óskað að halda áfram samskráningu. Komi í ljós að skilyrði eru ekki uppfyllt áskilur ríkisskattstjóri sér rétt til að afturkalla heimildina án frekari aðvörunar.
Að lokum skal tekið fram að þar sem þér sjáið um framtal, skil og uppgjör virðisaukaskatts fyrir umrædda aðila eru þér ásamt þeim (solidariskt) ábyrgir fyrir greiðslu skattsins.
Ljósrit af bréfi þessu skal ávallt liggja fyrir í bókhaldi viðkomandi aðila.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattsstjóra,
Vala Valtýsdóttir.
Afrit: Skattstjórinn í Reykjavík.