Dagsetning Tilvísun
4. júlí 1997 807/97
Virðisaukaskattur – tekjufærsla – magnbónus vegna aflasölu
Vísað er til bréfs yðar, mótt. 1. apríl sl., þar sem þér óskið eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvenær beri að tekjufæra greiðslur vegna magnbónuss og þá jafnframt hvenær slíkar greiðslur teljist til virðisaukaskattsskyldrar veltu.
Í símtali við yður kom fram af yðar hálfu að umræddur magnbónus væri greiddur þeim viðskiptamönnum sem höfðu haft mest viðskipti við viðkomandi seljanda, þ.e. þeir seljendur afla sem seldu mest magn afla til viðkomandi kaupanda fengju greiddan svokallaðan magnbónus næsta ár eftir lok viðskiptaársins.
Ljóst er að seljendur afla hafa ekki upplýsingar um hvort þeir fá magnbónus heldur er það ekki fyrr en kaupandi hefur kannað eftir lok hvers almanaksárs hversu mikið hefur verið keypt af hverjum seljanda fyrir sig að ljóst er hverjir fá magnbónus.
Af framansögðu þykir ljóst að tekjur vegna magnbónusgreiðslu eru svo óvissar í árslok að þær ber að tekjufæra við greiðslu, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að sama skapi er því greiðanda óheimilt að gjaldfæra greiðslurnar fyrr en greiðslan fer í raun fram.
Jafnframt er ljóst að umræddar greiðslur eru hluti af greiðslu fyrir áður afhentan afla og teljast því til skattskyldrar veltu skv. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Tekið skal fram að telja ber slíkar greiðslur til skattskyldrar veltu þess uppgjörstímabils sem þær fara fram á.
Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.
Friðgeir Sigurðsson