Dagsetning Tilvísun
23. mars 1990 31/90
Virðisaukaskattur – fasteignasala.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. febrúar sl. , þar sem spurt er (í) hvernig fara eigi með kostnað vegna veðbókarvottorða, staðfestra ljósrita o.fl. sem fasteignasalar leggja út fyrir viðskiptamenn án álagningar og (ii) hvort leggja eigi virðisaukaskatt á auglýsingakostnað frá árinu 1989 sem fasteignasalar innheimta hjá seljendum fasteigna á árinu 1990. Segir í bréfi yðar að þessir auglýsingareikningar séu skrifaðir út á nafn viðkomandi fasteignasölu á árinu 1989 af auglýsingamiðlurum og væntanlega gjaldfærðir strax íbókhaldi fasteignasölunnar.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
1. Í 19. gr. reglug. nr.501/1989 er fjallað um útlagðan kostnað og hvenær megi halda útlögðum kostnaði utan skattverðs. Skilyrðin eru þessi:
* Þjónustusali endurkrefji þjónustukaupa um kostnaðinn án nokkurs álags eða kostnaðar.
* Sölureikningur vegna kostnaðarins sé skráður á nafn þjónustukaupa.
* Þjónustukaup fái frumrit reikningsins í hendur ásamt uppgjöri.
Í uppgjöri milli aðila á að tilgreina fjárhæðir allra reikninga vegna útlagðs kostnaðar ásamt tegund kostnaðar og nöfnum seljenda. Áritað eintak uppgjörsins (samrit) er bókhaldsskjal þjónustusala.
Ríkisskattstjóri fellst á að halda megi opinberum vottorðum fyrir utan skattverð sem útlögðum kostnaði þótt frumrit reiknings sé skráð á nafn fasteignasalans og þjónustukaupi
fái frumrit ekki afhent. Tekur þetta t.d. til veðbókarvottorða og staðfestra ljósrita sem opinberir aðilar gefa út, enda séu gögn þessi skráð á nafn eiganda eignar (seljanda).
2. Sú þjónusta fasteignasala sem innt er af hendi eftir síðastliðin áramót er skattskyld til virðisaukaskatts. Allur kostnaður sem innifalinn er í verði eða sem fasteignasali krefur viðskiptamann sinn um telst til skattverðs nema reglur um útlagðan kostnað eigi við. Skiptir ekki máli hvort kostnaðurinn hefur fallið til á árinu 1990 eða fyrr. Þannig verður að telja auglýsingakostnað fasteignasala frá árinu 1989 sem varðar sölur á árinu 1990 til skattverðs.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.