Dagsetning                       Tilvísun
15. júlí 1997                            810/97

 

Virðisaukaskattur – kennsluverkefni – bygging sumarbústaða

Vísað er til bréfs yðar, dags. 21. apríl sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort framhaldsskóla beri að innheimta og skila virðisaukaskatti af sölu sumarbústaða sem byggðir eru af nemendum tréiðnabrautar.

Í bréfi yðar kemur fram að sumarbústaðirnir eru seldir með hagnaði, þ.e. beinn efniskostnaður er lægri en verð sumarbústaðana. Hagnaður af sölu hefur farið í endurnýjun á vélum í tréiðnadeild. Jafnframt er ljóst af bréfinu að sala sumarbústaðana er gerð í hagnaðarskyni þar sem kemur fram að með þessari ráðstöfum spari skólinn umtalsverðar upphæðir í efnisgjöldum sem ella lentu að hluta á skólanum (og nemendum). Með hagnaðarskyni er átt við að tekjur af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu séu að jafnaði hærri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar (og heimilt er að draga frá sem innskatt), sbr. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Til svars bréfi yðar skal fyrst tekið fram að samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, skulu ríki, bæjar- og sveitarfélög og svo og stofnanir eða fyrirtæki þeirra innheimta og skila virðisaukaskatti að því leyti sem þeir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Ljóst er að umræddur skóli er á vegum ríkisins og að sala sumarbústaða er í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Með vísan til þessa er ljóst að skólanum ber að innheimta virðisaukaskatt af sölu sumarbústaðana.

Athygli yðar skal vakin á því að innskattsheimild opinberra aðila, sem skattskyldir eru á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna, er takmörkuð við þau aðföng sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Með öðrum orðum er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af efni, verkfærum og öðrum aðföngum nema þau séu eingöngu keypt til byggingar sumarbústaðana.

Skólanum ber að tilkynna starfsemina til skráningar hjá viðkomandi skattstjóra, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna.
Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.

 

Afrit sent: Ríkisendurskoðun