Dagsetning                       Tilvísun
21. júlí 1997                             814/97

 

Breytingar á reglugerðum nr. 576/1989, 667/1995 og 515/1996 og á auglýsingu frá ríkisskattstjóra nr. 8/1994 í Lögbirtingablaði

Hér með sendast yður, hr./fr. skattstjóri, ljósrit af eftirfarandi reglugerðum og auglýsingu;

  • reglugerð nr. 375/1997, um breyting á reglugerð nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, með áorðinni breytingu skv. reglugerð nr. 588/1996,
  • reglugerð nr. 376/1997, um breyting á reglugerð nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi,
  • reglugerð nr. 378/1997, um breyting á reglugerð nr. 515/1996, um skráningu virðis­­auka­skattsskyldra aðila,
  • auglýsing frá ríkisskattstjóra nr. 405/1997 í Stjórnartíðindum um breytingu á auglýsingu nr. 8/1994, í Lögbirtingablaði um reglur um stofn til virðisaukaskatts (skattverð) í byggingarstarfsemi.

Breytingar á reglugerðum um skráningu, framtal og skil

Með reglugerðum nr. 375/1997 og 378/1997, sem tóku gildi 24. júní s.l., voru gerðar breytingar á skilamáta nytjaskógræktaraðila. Með reglugerð nr. 375/1997 voru jafnframt gerðar breytingar á skilamáta umboðsmanna erlendra fyrirtækja. Breytingarnar fela það í sér að ársskilareglur koma ekki til álita um þessa aðila. Uppgjörstímabil umboðsmanna erlendra aðila eru almenn tveggja mánaða tímabil, en uppgjörstímabil nytjaskógræktaraðila sex mánuðir meðan velta þeirra er undir tilteknu lágmarki, annars almenn. Með orðsendingu vegna virðisaukaskatts nr. 4/1997 verða helstu reglur um virðisaukaskatt í nytjaskógrækt kynntar fyrir skógarbændum.

Breytingar á reglugerð og reglum um byggingarstarfsemi

Með reglugerð nr. 376/1997 var gerð breyting á skattverðsreglum í byggingar­starfsemi. Samhliða voru gerðar tengdar breytingar sem um getur í auglýsingu frá ríkisskattstjóra nr. 405/1997 í Stjórnartíðindum. Breytingarnar tóku gildi 1. júlí s.l. Annars vegar var reglum um útreikning útskatts vegna vinnu breytt á þann veg að launatengd gjöld fóru út úr stofni fyrir álagsútreikning, en í staðinn var bætt inn í álagsstuðla fastri tölu sem ígildi launatengdra gjalda. Hins vegar var álagstala vegna iðnaðar- og verkamanna á byggingarstað lækkuð um 4,5% með hliðsjón af aukinni samkeppni o.fl.

Með orðsendingu vegna virðisaukaskatts nr. 5/1997 verða gjaldendum kynntar helstu breytingar samkvæmt framangreindu, auk breytinganna sem urðu á virðisaukaskatts­lögunum með lögum nr. 55/1997.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ingibjörg Ingvadóttir

 

Afrit sent: S og Sambandi íslenskra sveitarfélaga