Dagsetning Tilvísun
28. júlí 1997 815/97
Undanþ. velta – breytingar – fjarskiptaþjónusta – þjónusta fyrir erlenda aðila
Fjarskiptaþjónusta – 1. tölul. 1. mgr. 12. gr.
Í 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um að vara sem seld er úr landi, svo og vinna og þjónusta sem veitt er erlendis, sé undanþegin skattskyldri veltu. Með 1. tölul. 5. gr. laga nr. 55/1997 var bætt við nýjum málslið og kveðið á um að fjarskiptaþjónusta teljist ekki vera veitt erlendis ef kaupandi hafi annaðhvort búsetu eða starfsstöð hér á landi.
Um þessa breytingu vísast nánar til bréfs ríkisskattstjóra dags. 11. júní 1997 (bréf 801/97) og orðsendingar vegna virðisaukaskatts nr. 5/1997.
Þjónusta fyrir erlenda aðila – 9. og 10. tölul. 1. mgr. 12. gr.
Með 2. og 3. tölul. 5. gr. laga nr. 55/1997 varð töluverð breyting á framkvæmd á sviði virðisaukaskatts af þjónustu fyrir erlenda aðila samkvæmt reglugerð nr. 194/1990, sbr. núgildandi 9. og 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga.
Um þessar breytingar segir m.a. í greinargerð með frumvarpinu til laga nr. 55/1997 að lagt sé til að fellt sé á brott heimildarákvæði fjármálaráðherra til að ákveða undanþágur vegna þjónustu sem veitt sé hér á landi til aðila sem hafi heimilisfesti erlendis. Í staðinn verði lögákveðið að sala á þjónustu til erlendra aðila sem hvorki hafi búsetu né starfsstöð hér á landi sé undanþegin skattskyldri veltu í þeim tilvikum sem þjónustan sé að öllu leyti nýtt erlendis. Í þessu felist sú efnisbreyting að horfið sé frá heimild til undanþágu í þeim tilvikum þar sem erlendur rekstraraðili gæti, ef starfsemi hans væri skráningarskyld hér á landi, talið greiddan virðisaukaskatt til innskatts. Þess í stað geti erlendir rekstraraðilar sem kaupi viðkomandi þjónustu hér á landi fengið virðisaukaskatt af henni endurgreiddan samkvæmt reglugerð nr. 288/1995, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirækja. Þetta sé þó með þeirri undantekningu að lagt sé til að undanþága vegna þjónustu sem veitt sé erlendum fiskiskipum vegna löndunar eða sölu afla hér á landi verði áfram í gildi. Rökin fyrir þessu séu þau að oftast nær væri örðugt fyrir þessa aðila að sækja um endurgreiðslu samkvæmt reglugerð nr. 288/1995 þar sem fiskiskip staldri stutt við í landi.
Með lögum nr. 55/1997 bættust því við 1. mgr. 12. gr. tveir nýir töluliðir, 9. og 10. tölul., í stað heimildarinnar í 2. málsl. 2. mgr. sem féll brott. Fjármálaráðherra er samt sem áður heimilt að setja nánari skilyrði og framkvæmdarreglur samkvæmt 2. mgr. 12. gr. og 1. mgr. 49. gr. virðisaukaskattslaga.
Um 10. tölul. 1. mgr. 12. gr.
Af framansögðu er ljóst að b-liður 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 194/1990 hefur misst lagastoð.
Jafnframt er ljóst að ákvæði 2. gr. reglugerðarinnar eru orðin marklaus þar sem ekki skiptir lengur máli, í skilningi 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna, hvaða þjónusta er veitt svo fremi hún sé nýtt erlendis.
Þó skal minnt á að ekki verður breyting hvað varðar þjónustu vegna löndunar eða sölu á afla erlendra fiskiskipa hér á landi, sbr. 9. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna. Svo er heldur ekki um ábyrgðarviðgerðir sem innlendur umboðsaðili annast fyrir reikning erlends ábyrgðaraðila hérlendis, sbr. úrskurð yfirskattanefndar nr. 527/1995. Greiðslur fyrir slíkar ábyrgðarviðgerðir koma ekki inn í virðisaukaskattsuppgjör, enda komst nefndin að þeirri niðurstöðu að um væri að ræða greiðslur sem ekki teldust til viðskipta í skilningi virðisaukaskattslaga (tjónabætur).
Um nýtingarstað þjónustunnar
Þjónusta sem er í tengslum við starfsemi, eignir, réttindi eða hagsmunagæslu erlends aðila telst nýtt hér á landi og fellur því ekki undir ákvæði 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna.
Til dæmis um þjónustu sem telja má að nýtt sé að hluta eða öllu leyti hér á landi má almennt nefna vinnu sem varðar viðskiptahagsmuni hins erlenda kaupanda hér á landi, svo og aðstoð vegna fyrirhugaðra kaupa eða stofnunar fyrirtækis hér á landi. Einnig t.d málflutningsstörf fyrir íslenskum dómstólum, innheimtumál gegn íslenskum skuldurum, milligöngu um einkaleyfa-, mynstur- eða vörumerkjaskráningu, gæslu hagsmuna erlendra erfingja sem kalla til arfs í íslensku dánarbúi og álitsgerðir um íslenskar réttarreglur vegna viðskiptahagsmuna hér á landi.
Til dæmis um skilsmuninn má nefna lögfræðilega greinargerð unna af íslenskum lögmanni fyrir erlendan aðila. Greinargerðin er send úr landi og nýtt í dómsmáli þar. Þessi þjónusta telst nýtt erlendis og því undanþegin skattskyldri veltu. Lögfræðileg greinargerð sama lögmanns fyrir sama aðila nýtt í dómsmáli hérlendis telst á hinn bóginn til þjónustu nýttrar hér og landi og því til skattskyldrar veltu.
Um 9. tölul. 1. mgr. 12. gr.
Þótt þjónusta vegna löndunar eða sölu á afla erlendra fiskiskipa hér á landi sé nýtt hérlendis telst sala hennar samt til undanþeginnar veltu, enda byggir undanþágan á 9., en ekki 10. tölul., 1. mgr. 12. gr. laganna.
Þessi undanþága einskorðast við þjónustu sem tengist löndun eða sölu á afla erlendra fiskiskipa hér á landi. T.d. er uppskipun og akstur á afla á fiskmarkað undanþegin skv. ákvæðinu, enda sé greiðandi hinn erlendi aðili.
Það sem ekki breyttist
Örlað hefur á því að gjaldendur mistúlki framangreindar breytingar. Að gefnu tilefni er því minnt á að önnur ákvæði 12. gr. eru óbreytt.
Til dæmis er sala á skattskyldri vöru og þjónustu til varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sbr. lög nr. 110/1951, svo og sala í tollfrjálsum verslunum, sbr. VIII. kafla tollalaga nr. 55/1987, undanþegin skattskyldri veltu skv. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr., sbr. 48. gr. virðisaukaskattslaga. Til undanþeginnar veltu telst einnig t.d. sala á vörum um borð í erlent skip, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. laganna, eða á vistum, eldsneyti og búnaði til nota um borð í millilandaförum (þó ekki skemmtibáta og einkaloftför) svo og þjónusta veitt slíkum förum, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 12. gr., eða á t.d. viðgerðar- og viðhaldsvinnu við skip og loftför og fastan útbúnað þeirra (þó ekki skip undur 6 metrum, skemmtibáta eða einkaloftför), sbr. 7. tölul. 1. mgr. 12. gr.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ingibjörg Ingvadóttir
Hjálagt:
-12. gr. laganna með áorðnum breytingum