Dagsetning                       Tilvísun
1. ágúst 1997                             816/97

 

Nytjaskógrækt

Helstu reglur

Í hjálagðri orðsendingu vegna virðisaukaskatts nr. 4/1997 koma fram helstu reglur um virðisaukaskatt í nytjaskógrækt.

Þegar skráð/innsköttuð nytjaskógrækt

Síðasta blaðsíða orðsendingarinnar geymir eyðublað RSK 10.30, sem ætlast er til að þeir sem þegar eru á virðisaukaskattsskrá vegna nytjaskógræktar, sbr. samninga við Héraðsskóga/ Skógrækt ríkisins sem þinglýst er til og með 31. ágúst 1997, útfylli og skili til skattstjóra, ásamt afriti þinglýsts samnings, eigi síðar en 3. september 1997 þannig að skattstjórar geti gripið til viðeigandi ráðstafana. Eyðublaðið skal útfylla eins og form þess segir til um.

Þegar tilskilin gögn berast skattstjórum er ákjósanlegt að skráningarmál aðila séu afgreidd eins fljótt og auðið er. Áritun tveggja mánaða skýrslna (gíróseðla virðisaukaskatts) vegna uppgjörstímabilsins júlí-ágúst 1997 fer fram í kringum 15. september og því æskilegt að breytingar á skilamáta, í viðeigandi tilvikum, hafi farið fram fyrir þann tíma.

Þegar tilskilin gögn hafa borist þurfa starfsmenn virðisaukaskattseininga skattstjóra að:

  • Færa nytjaskógrækt á sérstakt virðisaukaskattsnúmer með viðeigandi atvinnu­greinar­númeri og skilamáta, þ.e. í sex mánaða skil frá 1. júlí 1997 ef ársvelta vegna ræktunarinnar stefnir í að vera undir 1.400.000 kr., og tilkynna aðila um skráningu og skilamáta.
  • Breyta atvinnugreinarnúmeri og skilamáta á sérstöku virðisaukaskattsnúmeri vegna nytjaskógræktar, en skil skulu vera sex mánaða frá 1. júlí 1997 ef ársvelta vegna ræktunarinnar stefnir í að vera undir 1.400.000 kr. Sé skilamáta breytt er rétt að tilkynna aðila um það.

Eftir 3. september n.k. er rétt að skattstjórar yfirfari upplýsingar um aðila sem gert hafa samninga við Héraðsskóga eða Skógrækt ríkisins, sbr. viðauka við bréf þetta og hjálögð gögn, að því leyti sem um er að ræða aðila í umdæmum þeirra, og finni þá aðila sem enn hafa ekki skilað umræddum gögnum. Ef gögnum hefur ekki verið skilað er rétt að kanna stofnskrárgögn skráðs aðila, og eftir atvikum innkalla bókhald hans, til athugunar á því hvort nytjaskógrækt sé á meðal skráðrar/innskattaðrar starfsemi. Sé svo er rétt að meta með hliðsjón af atvinnuskynsreglu hvort boða skuli aðila að hann verði felldur út af virðisaukaskattsskrá vegna nytjaskógræktar ef umbeðnum gögnum (eyðublaði RSK 10.30 og afriti þinglýsts samnings) verði ekki skilað.

Við afgreiðslu skráningarmála þegar skráðra aðila er rétt að gæta að því hvort skýrslum vegna uppgjörstímabilsins júlí-ágúst 1997 kunni að verða skilað og ef svo er að afgreiða þær með viðeigandi hætti, eftir atvikum hafna þeim. Við afgreiðslu skráningarmála þegar skráðra aðila er jafnframt rétt að gæta þess að ef skilamáta er breytt úr ársskilum þarf að kalla eftir uppgjöri (virðisaukaskattsskýrslu/leið­réttingar­skýrslu) vegna þess tíma sem liðinn er af árinu.

Ef samningur um nytjaskógrækt er ekki á bak við starfsemi skráðs skógræktaraðila er ekki um aðila í nytjaskógrækt að ræða, sbr. skilgreiningu undir liðnum “Almennt” í orðsendingu vegna virðisaukaskatts nr. 4/1997. Þá þarf að kanna hvort viðkomandi aðili eigi að vera á virðisaukaskattsskrá. Eigi hann ekki að vera á skrá ber að fella hann út af henni. Eigi hann að vera á skrá þarf að kanna hvernig hann skuli skráður (almenn skráning, fyrirfram skráning eða skráning gegn tryggingu skv. 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 515/1996 – skilamáti – atvinnugreinarnúmer).

Nýskráning nytjaskógræktar

Umsóknir um nýskráningu vegna nytjaskógræktar skal tilgreina á eyðublaði RSK 10.22. M.a. komi fram áætlun aðila á sölu skattskyldrar vöru eða þjónustu vegna nytjaskógræktar, án vsk., á yfirstandandi ári (til mats á skilamáta). Eyðublaðinu, ásamt afriti þinglýsts samnings, skal skila til skattstjóra. Tilkynna skal um skráningu og skilamáta, eins og venjulega, sbr. eyðublað RSK 10.13.

Skráning í tölvukerfi

Nytjaskógræktaraðilar eru skráðir með ÍSAT-númer 02.01.1 í mynd A1 í tölvukerfi virðisaukaskatts. Mikilvægt er að þessir aðilar séu auðkenndir með þessu númeri og aðrir ekki, enda munu nytjaskógræktaraðilar, þ.e. aðilar skráðir gegn tryggingu skv. 2. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 515/1996, þekkjast á þessu atvinnugreinarnúmeri í tölvukerfinu. Aðrir skógræktaraðilar eru skráðir með ÍSAT-númer 02.01.0. Skilamáti nytjaskógræktaraðila yrði yfirleitt 60 (sex mánaða), þó 10 (tveggja mánaða) ef sala er/stefnir í að vera yfir framangreindu veltumarki á yfirstandandi almanaksári.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ingibjörg Ingvadóttir

 

Hjálagt:
-Orðsending vegna virðisaukaskatts nr. 4/1997
-Viðauki, ásamt þar tilvitnuðum gögnum, b.t. virðisaukaskattseininga skattstofa

 

Afrit sent:
-Landbúnaðarráðuneyti
-H
-Skógrækt ríkisins
-S