Dagsetning Tilvísun
26. ágúst 1997 822/97
Virðisaukaskattur – viðgerðar- og viðhaldsvinna við björgunarbáta – skilyrði fyrir því að 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 eigi við.
Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri koma eftirfarandi upplýsingum til þeirra sem hafa með höndum eftirlit og viðhald gúmmíbjörgunarbáta skv. 9. gr. reglna um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa:
Umræddir aðilar hafa hlotið leyfi siglingamálastjóra til að annast eftirlit og viðhald gúmmíbjörgunarbáta. Þjónusta þeirra er m.a. fólgin í reglu¬bundnu og til¬fall¬andi eftir¬liti og viðhaldi á gúmmíbjörgunarbátum skipa og báta og búnaði þeim tengdum. Vinna þessi og þjónusta fer al¬fa¬rið fram á starfs¬stöð viðkomandi viðgerðaraðila og í flestum tilvikum sjá þeir hvorki um að taka bátana úr viðkomandi skipi/báti né að setja þá niður.
Til undanþeginnar veltu telst viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip og fastan útbúnað þeirra. Sama gildir um efni og vörur sem það fyrirtæki sem annast viðgerðina notar og lætur af hendi við þá vinnu sbr. 7. tölul. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Með föstum útbúnaði skips er, eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpi til virðisaukaskattslaga, aðallega átt við útbúnað sem er fastur við skip, t.d. fjarskipta-búnaður, ratsjá, og önnur siglingatæki, en nær einnig til björgunarbáta og annars öryggisútbúnaðar. Samkvæmt framansögðu telur ríkisskattstjóri að sá búnaður sem skylt er að hafa um borð í íslenskum skipum og bátum skv. reglum nr. 189/1994, um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa, falli undir ákvæðið að uppfylltum öðrum skilyrðum fyrir undanþágunni.
Ríkisskattstjóri telur að við túlkun ákvæðisins verði jafnframt að líta til 17. og 18. tölul. 13. gr. reglugerðar nr. 486/1982, um söluskatt, en þar átti sambærilegt ákvæði við ef seljandi annaðist úrvinnslu efnis eða niðursetningu um borð í skipi. Af framansögðu verður ekki talið nauðsynlegt að viðgerðaraðili setji hlut niður í skip í umræddum tilvikum enda séu önnur skilyrði fyrir undanþágunni uppfyllt. Umrætt ákvæði á ekki við í þeim tilvikum þegar fyrirtæki selur tæki, búnað, efni eða varahluti í skip án þess að annast sjálft viðgerð eða uppsetningu.
Vegna þess að hér er að finna afbrigði frá meginreglu virðisaukaskattslaga, eru gerðar kröfur um að seljandi geti sannað með bókhaldsgögnum sínum að honum hafi verið heimilt að halda viðskiptunum utan skattskyldrar veltu, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, (áður 1. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 501/1989 um sama efni). Þar er ríkisskattstjóra falið að setja reglur um hvaða gögn seljandi skuli varðveita í þessu sambandi. Ríkisskattstjóri telur að skilyrði fyrir því að umrædd þjónusta geti fallið undir undanþáguákvæðið sé að þjónustuaðili geti þess á reikningi við hvaða skip var unnið og skal útgerðarmaður eða yfirmaður skips staðfesta með yfirlýsingu og áritun sinni á afrit reiknings að þjónustan varði skip hans. Að öðrum kosti telst þjónustan til skattskyldrar veltu, sbr. 19. gr. virðisaukaskattslaga.
Að lokum skal tekið fram að ákvæðið á ekki við um skemmtibáta.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.