Dagsetning                       Tilvísun
18. nóvember 1997                            827/97

 

Virðisaukaskattur – hráefni til fiskvinnslu skv. reglugerð nr. 563/1989.

Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum varðandi ýmis atriði er varða hráefni til fiskvinnslu skv. reglugerð nr. 563/1989:

Skilgreining á hráefni til fiskvinnslu

Hugtakið „hráefni til fiskvinnslu“ á einkum við um ferskan fisk; slægðan eða óslægðan. Telja verður slógið (innyflin) sem hráefni til fiskvinnslu ef það er keypt sérstaklega, enda sé það ferskt og að öðru leyti óunnið (Sjá bréf 748/96). Jafnframt hefur það komið fram í áliti ríkisskattstjóra (bréf tilv. 768/96) fiskur teljist til hráefnis þrátt fyrir að hann sé einnig hausaður og sporðskorinn eða uggaskorinn. Frekari vinnsla á fiski svo sem flökun og roðfletting hefur verið talin valda því að ekki sé um að ræða hráefni til fiskvinnslu (bréf tilv. 748/96) enda er þá sá fiskur hálfunninn eða fullunninn. Tekið skal fram að hvalir hvort sem um stórhveli eða smáhveli er að ræða teljast ekki til hráefnis til fiskvinnslu enda ekki um fisk að ræða.

Geymsla/vinnsla

Þrátt fyrir að hugtakið „hráefni til fiskvinnslu“ sé einkum talið varða ferskan fisk hefur ríkisskattstjóri talið að sú geymsluaðferð á hafi úti sem fólgin er í ísun eða frystingu um borð í þeim tilgangi að hráefni haldi ferskleika sínum komi ekki í veg fyrir að fiskur teljist sem hráefni til fiskvinnslu enda sé hann þá ekki frekar unninn (bréf tilv. 755/96). Samkvæmt framansögðu þykir ljóst að fiskur sem saltaður er um borð telst a.m.k. hálfunninn og getur því ekki talist hráefni til fiskvinnslu í skilningi reglugerðarinnar.

Kaup til endursölu

Tekið skal fram að þegar ljóst er í upphafi að hið keypta hráefni eða hluti þess verður ekki unnið hjá fiskvinnslufyrirtækinu heldur selt annað þá teljast slík innkaup ekki til hráefnis til fiskvinnslu. Óheimilt er því að færa virðisaukaskatt af slíkum innkaupum á bráðabirgðaskýrslu því hér er um að ræða innskatt sem ber að færa á hina almennu virðisaukaskattsskýrslu, sbr. 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 563/1989.

Leiðréttingar á bráðabirgðaskýrslu

Ef hráefni sem fiskvinnslufyrirtæki hafa fengið endurgreiddan innskatt af á grundvelli bráðabirgðaskila er endurselt ber þeim að leiðrétta bráðabirgðaskýrslu vegna þessarar hráefnissölu í þeirri viku sem endursalan á sér stað og skal þá sá innskattur færður á virðisaukaskattsskýrslu almenna uppgjörstímabilsins. Ljóst er að slík leiðrétting getur einungis farið fram innan almenna uppgjörstímabilsins, þ.e. ef hráefni er selt öðrum aðila eftir lok þess almenna uppgjörstímabils sem hráefniskaupin voru gerð þá fer engin leiðrétting fram.

Álag

Almennt er ekki talið að álagsheimild sé til staðar við leiðréttingu á bráðabirgða-skilum. Hins vegar horfir öðruvísi við þegar aðilar hafa ekki leiðrétt bráðabirgðaskil sín þegar hráefni hefur verið endurselt. Sem dæmi um þetta skal tekið þegar hráefni hefur verið keypt og síðan selt strax í kjölfarið en fiskvinnslufyrirtæki hefur samt fært innkaupin á bráðabirgðaskýrslu eða látið undir höfuð leggjast að leiðrétta bráða-birgðaskil. Það er álit ríkisskattstjóra að í slíkum tilvikum skuli beita álagi þar sem endurgreiðsla hefur verið of há, sbr. 27. gr. virðisaukaskattslaga enda er aðilum óheimilt að telja til innskatts á bráðabirgðaskýrslu annað en hráefni til fiskvinnslu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.