Dagsetning                       Tilvísun
1. desember 1997                            830/97

 

Innskattur – rekstrarleiga á fólksbifreiðum

Vísað er til bréfs yðar, dags. 25. nóvember sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort eignaleigufyrirtæki sé heimilt að telja virðisaukaskatt af kaupum á fólksbifreiðum til innskatts þegar þær eru leigðar út á rekstrarleigu.

Í bréfi yðar kemur fram m.a.:
„Rekstrarleigusamningar eru samningar yfir leigumun sem við eignfærum hjá okkur, sem varanlegan rekstrarfjármun, og leigjum út til leigutaka. Lagður er útskattur á leigusamninga. Ef við kaupum fólksbifreið með virðisaukaskatti megum við þá nýta okkur innskatt af kaupunum þar sem við leigjum fólksbifreiðina með útskatti?“

Til svars bréfi yðar þá er meginreglan sú varðandi öflun fólksbifreiða að óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum, sbr. 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Hins vegar er undantekning á reglunni í 6. mgr. 16. gr. laganna en þar segir að þrátt fyrir 6. tölul. 3. mgr. sé skattskyldum aðilum sem hafa með höndum sölu eða leigu bifreiða heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum vegna þeirra viðskipta.

Samkvæmt framansögðu þykir ljóst að eignaleigufyrirtæki er heimilt að telja virðisaukaskatt af öflun fólksbifreiða til innskatts þegar þeirra er aflað vegna sölu eða leigu, þ.m.t. rekstrarleigu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.