Dagsetning Tilvísun
16. desember 1997 831/97
Virðisaukaskattur – meðferð gjafakorta
Vísað er til fundar með yður dags. 3. desember sl., þar sem komu fram óskir samtakanna um að fá undanþágu frá ákvæði 6. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.
Umrætt ákvæði sem óskað er eftir undanþágu frá fjallar um tekjuskráningu á sölu gjafakorta. Á umræddum fundi kom fram að þeim aðilum sem hafa í rekstri sínum tekjuskráningarkerfi þar sem birgðabókhald er tengt fjárhagsbókhaldinu er illmögulegt að fara eftir þeim reglum sem gilda um tekjuskráningu á sölu gjafakorta. Í þessu sambandi fóru samtökin fram á að umræddum aðilum yrði heimiluð undanþága frá ákvæði 6. mgr. 8. gr. en þó þannig að haldið yrði sérstaklega utan um tekjuskráningu vegna sölu gjafakorta.
Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. sömu reglugerðar getur ríkisskattstjóri heimilað aðilum að víkja frá einstökum ákvæðum í 3.- 9. gr. enda sýni aðili fram á notkun á skýru og öruggu kerfi sem tryggir að unnt sé að sannreyna að allar tekjur komi fram. Á grundvelli þessa ákvæðis hefur ríkisskattstjóri ákveðið að veita undanþágu frá skyldu til útgáfu sölureiknings við úttekt skv. 6. mgr. 8. gr. hjá þeim sem skrá tekjur sínar í sjóðvél. Nánar tiltekið er því heimilt að fara með sölu á gjafakortum með eftirfarandi hætti:
- Gjafakort getur komið í stað kvittunar sé það fyrirfram tölusett í þríriti. Tvírit er þó nægjanlegt ef í stað þriðja eintaksins er gert söluuppgjörsblað yfir útgefin gjafakort þar sem fram kemur númer, dagsetning, fjárhæð og skattþrep hvers gjafakorts. Á kvittun eða gjafakorti sem kemur í stað kvittunar skal koma fram eftirfarandi:
- Útgáfudagur.
- Lýsing á úttektarheimild þannig að unnt sé að ákvarða skattþrep. Geti lýsing varðað vöru eða þjónustu í báðum þrepum skal telja innborgunina til 24,5% skattþreps.
- Heildarfjárhæð úttektarheimildar. Það skal koma fram ef úttekt er miðuð við sérstakt staðgreiðsluverð. Sé úttektarheimild hærri en greiðsla fyrir gjafakortið (innborgunin) skal tilgreina greiðsluna eða afsláttinn með skýrum hætti.
- Virðisaukaskattur, annað hvort fjárhæð eða hlutfall hans af heildarverði.
- Meðal efnahagsliða í fjárhagsbókhaldi skal halda sérstakan biðreikning vegna útskatts af innborgunum vegna sölu gjafakorta auk biðreiknings vegna heildarfjárhæðar útgefinna gjafakorta. Virðisaukaskatt sem fellur á innborganir vegna seldra gjafakorta skal færa á debet-hlið biðreiknings útskatts um leið og hann er færður á kredit-hlið útskattreiknings. Við afhendingu vegna úttektar á gjafakorti skal útskattur vegna innborgunarinnar færður kredit á biðreikninginn og debet á útskattsreikning enda skráist afhending vöru á grundvelli gjafakortsins um leið skv. hefðbundinni aðferð aðila hvort sem hún felst í útgáfu sölureiknings eða skráningu í sjóðvél einvörðungu. Á kredit-hlið biðreiknings vegna heildarfjárhæðar gjafakorta skal skrá fjárhæðir útgefinna gjafakorta við afhendingu þeirra. Við afhendingu vöru á grundvelli gjafakorts skal færa heildarfjárhæð úttektar á debet-hlið reikningsins.
- Sé veittur styrkur (gjöf) sem hluti af skráðum fjárhæðum gjafakorta skal færa hann (mismun úttektarfjárhæðar og innborgunar) á sérstakan reikning fyrir gjafir/styrki. Við afhendingu gjafakorts án greiðslu skal færa úttektarfjárhæð á þennan reikning og fer tekjuskráning vegna slíkra úttekta eftir almennum reglum.
Til frekari glöggvunar fylgir bréfinu dæmi um færslur á framangreinda reikninga.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.