Dagsetning Tilvísun
16. febrúar 1998 841/98
Veggjald á umferð um A.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 8. janúar sl., þar sem þér óskið úrskurðar ríkisskattstjóra um það “hvernig með virðisaukaskatt skuli fara þegar rekstur ganganna hefst”.
Samkvæmt áliti ríkisskattstjóra nr. 152, dags. 19. október 1990, er sala aðgangs að veggöngunum virðisaukaskattsskyld þjónusta og á því byggist heimild til innskattsfrádráttar vegna byggingar þeirra. Engin breyting hefur orðið á ákvæðum laganna að því er varðar umrætt atriði síðan álitið var gefið út. Félaginu ber því að innheimta og skila 24,5% virðisaukaskatti af gjaldi fyrir umferð um göngin.
Í bréfi yðar er vísað til samnings B. við samgönguráðherra og fjármálaráðherra frá 22. apríl 1995. Til að öðlast gildi þurfti samningurinn að hljóta staðfestingu Alþingis sem fékkst með samþykkt þingsályktunartillögu á 117. löggjafarþingi (1993-94) svohljóðandi: “Alþingi ályktar að staðfesta samning milli samgönguráðherra og hlutafélagsins B., dags. 23. júní 1993, um vegtengingu um utanverðan C, sbr. 2. gr. laga nr. 45/1990.” Í 9. gr. samningsins er eftirfarandi texti:
“Samningurinn er við það miðaður að virðisaukaskattur af umferðartekjum verði ekki hærri en 14%, eða eins og af fólksflutningum á hverjum tíma. Komi til hækkunar skattsins umfram 14%, mun ríkissjóður tryggja að sú hækkun hafi ekki áhrif á greiðslugetu félagsins á endurgreiðslutíma stofnlána.”
Fyrri málsliður þessa texta stangast á við ákvæði laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Af því tilefni þykir verða að taka fram að þingsályktanir hafa ekki lagagildi og getur téð þingsályktun því ekki breytt ákvæði 14. gr. virðisaukaskattslaga um skatthlutfall enda segir m.a. í athugasemdum við þingsályktunina:
“Gert var ráð fyrir að virðisaukaskattur á umferðargjald yrði 14% með fyrirvara um ákvörðun löggjafans um skatthlutfall á samgöngur.”
Þingsályktunin þjónaði því þeim einum tilgangi að veita samningnum gildi en ekki að breyta ákvæðum virðisaukaskattslaga. Við afgreiðslu þingsályktunar til staðfestingar á samningi gildir almennur fyrirvari um að hann stangist ekki á við gildandi lög, enda lagabreytingum ætluð strangari málsmeðferð með þremur umræðum og atkvæðagreiðslum á milli. Þessu til frekari stuðnings skal á það bent að í tilvitnuðu ákvæði samningsins er fyrirvari um að ríkissjóður tryggi að skatthlutfall umfram forsendur samningsins valdi félaginu ekki fjárhagslegum skaða.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Jón H. Steingrímsson