Dagsetning Tilvísun
12. mars 1998 845/98
Uppgjör tjóna á rekstrarfjármunum
Vísað er til bréfs yðar, dags. 30. desember 1997, þar sem þess er farið á leit við ríkis- skattstjóra að hann heimili sérmeðferð og staðfesti skriflega, að:
1. Tjónþolum (rekstraraðilum) verði heimilt að nýta virðisaukaskatt af reikningum verkstæða og varahlutasala vegna tjóna til innskatts, þegar reikningarnir eru stílaðir á tryggingafélagið með tilvísan til tjónþolans og kennitölu hans og fram kemur á reikningnum, að þeir séu gefnir út vegna tiltekins bótaskylds tjóns.
2. Heimilað verði, að tryggingafélagið safni saman öllum reikningum vegna tiltekins tjóns. Við endanlegt uppgjör tjónsins afhendi félagið tjónþola frumrit af öllum reikningum til innskatts á sama virðisaukaskattstímabili.
Ríkisskattstjóri getur ekki fallist á að reikningar uppfylli kröfur um innskattshæfi hjá tjónþola, ef þeir eru stílaðir á tryggingafélagið sem greiðanda. Reikninga ber að stíla á tjónþola. Ríkisskattstjóri sér hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að á reikningana sé skráð b.t. einhvers annars t.d. tryggingafélags ef það er greiðandi. Tjónþoli fái síðan frumrit reiknings í hendur þegar hann hefur verið greiddur, sbr. reglur um útlagðan kostnað. Tjónþoli gjaldfærir skv. reikningum en tekjufærir tjónabætur skv. uppgjöri.
Sem svar við síðari spurningu yðar skal tekið fram að skv. 1.mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, ber að gefa út sölureikning þegar vara eða þjónusta hefur verið afhent. Í 4. mgr. 15. gr. sömu laga segir ennfremur að innskattur á uppgjörstímabili sé sá virðisaukaskattur sem fram kemur á reikningum þeirra sem selt hafa hinum skattskylda aðila á tímabilinu. Eigi að síður telur ríkisskattstjóri heimilt að færa virðisaukaskatt af umræddum reikningum til innskatts á viðkomandi tímabili, enda sendi tjónþoli leiðréttingarskýrslu vegna þessa í síðasta lagi með skattframtali ársins.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir