Dagsetning Tilvísun
1. apríl 1998 848/98
Virðisaukaskattur – sveitarfélög
Vísað er til bréfs yðar, dags. 15. desember 1998, þar sem spurst er fyrir um álagningu virðisaukaskatts á sveitarfélög.
Spurt er, hvort ákvæði 16. gr. virðisaukaskattslaga eigi við orku- og veitufyrirtæki í eigu sveitarfélaga svo sem hitaveitu, vatnsveitu eða rafveitu.
Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst til innskatts á hverju uppgjörstímabili virðisaukaskattur af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu skattaðila á vörum og skattskyldri þjónustu. í 2. mgr. er hins vegar að finna ákvæði þar sem fjármálaráðherra er heimilað að setja reglur um frádrátt að hluta af innkaupum sem varða ekki að fullu sölu skattaðila á skattskyldum vörum og þjónustu. II kafli reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, fjallar um innkaup sem ekki varða eingöngu sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu og 10. gr. þess fjallar um innskatt ríkisstofnana, sveitarfélaga o.fl. Í því ákvæði kemur fram að ríki, bæjar- og sveitarfélög og stofnanir og fyrirtæki þeirra sem skattskyld eru skv. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, mega einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu. Framangreint ákvæði sbr. 4. mgr. 16. gr. virðisaukaskattslaga nær ekki til opinberra orku- og veitufyrirtækja skv. 3. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Þess ber þó að geta að starfsemi vatnsveitna (sala á köldu vatni) telst ekki til skattskyldrar starfsemi nema að því leyti sem um er að ræða sölu á vörum eða skattskyldri þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki sbr. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.
Þá er óskað svars við því, hvort sveitarfélögum sé skylt að standa skil á virðisauka-skatti í ríkissjóð vegna starfsemi fólksbifreiðar sem er t.a.m. rekin af áhaldahúsi eða vélamiðstöð sveitarfélags.
Ekki skal reikna kostnað vegna rekstrar fólksbifreiða inn í stofn til virðisaukaskatts vegna skattskyldrar starfsemi áhaldahúss eða vélamiðstöðvar. Aftur á móti ber að reikna kostnað við rekstur sendi- og vörubifreiða inn í stofn til virðisaukaskatts, sbr. G-lið auglýsingar nr. 8/1994 frá ríkisskattstjóra, í Lögbirtingablaði, um reglur um stofn til virðisaukaskatts (skattverð) í byggingarstarfsemi, með breytingum samkvæmt auglýsingu úr Stjórnartíðindum nr. 405/1997. Eftir henni ber að fara þegar almennt gangverð liggur ekki fyrir í sams konar viðskiptum, sbr. 2. tölul. í auglýsingu nr. 17/1996.
Beðist er velvirðingar á því, hversu lengi hefur dregist að svara fyrirspurn yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir
Hjálagt: Auglýsingar nr. 8/1994 og 17/1996