Dagsetning                       Tilvísun
8. apríl 1998                            850/98

 

Seta bankastarfsmanna í stjórnum – greiðsla til banka vegna stjórnarsetu.

Vísað er til bréfa yðar, dags. 3. febrúar og 19. mars sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af þóknun til banka vegna setu starfsmanna þeirra í stjórnum félaga sem eru í eigu bankanna.

Í bréfi yðar kemur fram að þeir bankastarfsmenn sem sátu í stjórnum félaga í eigu bankanna fengu greidd stjórnarlaun vegna setunnar. Þegar bankarnir voru síðan gerðir að hlutafélögum var fyrirkomulagi þessara greiðslna breytt þannig að bankastarfsmenn fá ekki greidd stjórnarlaun vegna setunnar heldur fær viðkomandi eigandi (banki) greidda samsvarandi fjárhæð. Síðan er spurt hvort bönkunum beri að leggja virðisaukaskatt á þá greiðslu sem þeir koma til með að innheimta fyrir setu starfsmanna sinna í þessum stjórnum.

Til svars bréfi yðar skal fyrst tekið fram að vinna manna vegna stjórnarstarfa í hlutafélögum eða öðrum félögum er ekki virðisaukaskattsskyld ef um er að ræða fastar þóknanir fyrir stjórnarstörf (stjórnarlaun) sem falla undir 1. tölul. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Eða með öðrum orðum litið er á stjórnarlaun sem launatekjur en ekki tekjur vegna stjálfstæðar starfsemi.

Hvað varðar aftur á móti greiðslu til banka vegna setu starfsmanna hans í stjórnum hlutafélaga verður ekki annað séð en að þar sé um að ræða þóknun atvinnufyrirtækis fyrir veitta þjónustu sem er virðisaukaskattsskyld skv. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, enda er ekkert undanþáguákvæði laganna sem tekur til umræddrar þjónustu. Að lokum skal tekið fram að ekki skiptir máli í þessu sambandi að seljandi þjónustunnar er banki enda virðist ekki vera um að ræða þá þjónustu sem undanþegin er á grundvelli ákvæðis 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir