Dagsetning Tilvísun
16. apríl 1998 851/98
Virðisaukaskattur – sala á fjarskiptaþjónustu til erlendra aðila
Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. febrúar sl., þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvernig beri að túlka ákvæði i.-liðar 10. töluliðar 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. lög nr. 115/1997.
Áður en svarað verður einstökum liðum í fyrirspurn yðar skal tekið fram að fjarskiptaþjónusta er þess eðlis að erfitt er að skera úr um afhendingarstað með hefðbundnum hætti, enda má segja að afhending hefjist í einu landi og ljúki í öðru. Þess vegna er eðlilegt að líta fremur til þess hvar starfsstöð seljanda er til ákvörðunar um afhendingarstað. Verður fyrirspurn yðar svarað með tilliti til þessa.
Í ákvæði 10. töluliðar 1. mgr. 12. gr. laganna er fjallað um sölu á vissri þjónustu til erlendra aðila sem er undanþegin virðisaukaskattsskyldri veltu. Annars vegar er um að ræða þjónustu sem er að öllu leyti nýtt erlendis og hins vegar sölu á þjónustu til erlendra aðila þó að hún sé ekki nýtt að öllu leyti erlendis ef kaupandi gæti, væri starfsemi hans skráningarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna kaupanna til innskatts. Í ákvæðinu er síðan talin upp sú þjónusta sem fellur undir ákvæðið og er fjarskiptaþjónusta tilgreind í i.-lið.
Tekur ákvæðið þannig til erlendra rekstraraðila GSM- og NMT-farsímakerfa þegar notendur þeirra eru staddir hér á landi og nota símana enda væri starfsemi þeirra skráningarskyld hér á landi.
Undir ákvæðið fellur einnig notkun erlendra útgerðarfyrirtækja á íslenskum farsímum um borð í skipum sínum enda væri starfsemi þeirra skráningarskyld hér á landi. Til frekari skýringa skal tekið fram að slík notkun af hálfu erlends fólksflutninga-fyrirtækis fellur ekki undir ákvæðið.
Í bréfi yðar er einnig spurt að því hvort undir ákvæðið falli línuleiga til erlendra fréttastofa. Að áliti ríkisskattstjóra er hér um að ræða fjarskiptaþjónustu sem fellur undir umrætt undanþáguákvæði enda væri starfsemi fréttastofanna skráningarskyld ef hún væri staðsett hér á landi.
Að lokum er síðan spurt hvort innheimta beri virðisaukaskatt af fjarskiptaþjónustu sem seld er alþjóðaflugmálastofnuninni, I. Til svars þessu þá vísar ríkisskattstjóri til bréfs dags. 7. mars 1997 (tilv. 789/97) þar sem fjallað er um þessa þjónustu. Í því áliti kemur fram að þjónustan (línuleiga) telst vera nýtt hér á landi. Jafnframt þykir ljóst að starfsemi slíkrar stofnunar væri ekki virðisaukaskattsskyld hér á landi og því fellur fjarskiptaþjónusta sem seld er slíkum aðila ekki undir umrætt undanþágu-ákvæði.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.