Dagsetning Tilvísun
20. apríl 1998 852/98
Markaðsgjald – yfirfærsla eigna skv. 4. mgr. 12. gr. vskl.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 29. desember 1997, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á markaðsgjaldsskyldu vegna yfirfærslu eigna, annars vegar sem hlutafjárframlags við stofnun eða hlutafjáraukningu og hins vegar við samruna félaga skv. ákvæðum hlutafélagalaga þannig að eitt félag er yfirtekið og algerlega sameinað öðru án skuldaskila.
Í bréfinu eru rakin eftirfarandi tvö tilvik vegna yfirfærslu eigna:
- Hlutafjárframlag
“Hlutafélag er stofnað af öðrum lögaðila með inngreiðslu hlutafjár en í kjölfar skráningar er hlutafé þess aukið með því að leggja fram eignir sem tilheyrðu einu af starfssviðum stofnandans sem jafnframt hættir rekstri á því sviði. Stofnandinn er að svo stöddu eini hluthafi félagsins að frátöldum örlitlum hlut sem er í eigu annars dótturfélags hans. Hinar framlögðu eignir eru viðskiptakröfur, vörubirgðir, eignarhlutar í öðrum félögum, fasteignir, vélar og áhöld og keyptar fiskveiðiheimildir. Eignunum fylgja áhvílandi afurðalán og veðskuldir en til endurgjalds nettóeigna fær stofnandinn afhent hlutabréf í félaginu.“
- Samruni félaga
„Hlutafélag B sameinast hlutafélagi A á þann hátt að það er yfirtekið og algerlega sameinað A án skuldaskila. Allir hlutir í A og B eru við samrunann í eigu eins og sama hluthafa, að frátöldum örlitlum hlut sem er í eigu annars dótturfélags hans. Við sameininguna eru nettóeignir B metnar um 53% af nettóeignum hins sameinaða félags og koma til endurgjalds þeim hlutabréf í sama hlutfalli. Eignir B sem þannig eru lagðar til A eru reiðufé, viðskiptakröfur, vörubirgðir, eignarhlutar í öðrum félögum, fiskiskip og keyptar fiskveiðiheimildir. Eignunum fylgja áhvílandi veðskuldir og skammtímaskuldir sem, til hefur verið stofnað í rekstri B.“
Í bréfi yðar er síðan óskað álits á því hvort um markaðsgjaldsskyldu er að ræða við eignaryfirfærslu í framangreindum tilvikum.
Ákvæði um álagningu markaðsgjalds er að finna í 3. gr. laga nr. 114/1990, um Útflutningsráð Íslands, með áorðnum breytingum samkvæmt lögum nr. 122/1993, sbr. I. og II. ákvæði til bráðabirgða, sbr. 52. gr. laga nr. 122/1993. Í 3. gr. laganna kemur fram að gjaldstofninn sé velta atvinnufyrirtækja eins og hún er skilgreind skv. 11. og 12. gr. laga um virðisaukaskatt.
Að áliti ríkisskattstjóra er fyrra tilvikið í bréfi yðar dæmi um eignayfirfærslu í sambandi við eigendaskipti á fyrirtæki sem fellur undir 4. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga enda er ljóst að eignir skipta um eigendur í dæminu.
Hvað varðar síðara tilvikið þá telur ríkisskattstjóri að túlka beri ákvæði 4. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga svo að eignayfirfærsla sem verður við slit á einu félagi þegar það sameinast öðru falli undir ákvæðið. Ákvæðinu er ætlað að tryggja ákveðinn framgangsmáta þegar eignir eins félags eru afhentar öðru. Samkvæmt þessu telur ríkisskattstjóri að eignayfirfærsla milli félaga, hvort sem eldra félaginu er slitið eður ei, teljist ávallt til veltu í skilningi virðisaukaskattslaga og síðan ráði önnur atvik því hvort umrædd velta er undanþegin virðisaukaskatti, eins og í þessu tilviki, eða ekki eins og þegar rekstrarfjármunir eru seldir milli aðila án þess að um sé að ræða yfirtöku á heilu fyrirtæki eða sjálfstæðri rekstrareiningu innan þess.
Samkvæmt framansögðu þykir ljóst að í báðum framangreindum tilvikum er um að ræða veltu sem er markaðsgjaldsskyld.
Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.