Dagsetning Tilvísun
29. mars 1990 34/90
Virðisaukaskattur – „Stundin okkar“ o.fl.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. mars sl., þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort starf yðar við dagskrárgerð hjá Sjónvarpinu sé virðisaukaskattsskylt. Í bréfinu er starfinu lýst svo að í því felist samning leikrita, brúðugerð, leikur og leikstjórn. Þá er spurt hvort virðisaukaskattur leggist á störf yðar í „Leikbrúðulandi“ og útileikhúsinu „Brúðubílnum“, en störf yðar þar felist einnig í samningu brúðuleikrita, leik og brúðustjórnun.
Til svars erindinu skal tekið fram að sú starfsemi sem lýst er í bréfi yðar virðist undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Aðgangseyrir að leikhúsum, sem ekki tengjast öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi, er undanþeginn virðisaukaskatti skv. 4. tölul. sama ákvæðis. Undanþágan þýðir að virðisaukaskattur leggst ekki á þóknun yðar fyrir umrædd störf eða aðgangseyrir eða aðra þóknun fyrir sýningar, en virðisaukaskattur af aðföngum til starfseminnar fæst ekki frádreginn eða endurgreiddur.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.