Dagsetning Tilvísun
15. janúar 1999 902/99
Virðisaukaskattur- álag – greiðsla í gegnum heimabanka
Í tilefni af fjölda kæra vegna álags í þeim tilvikum sem gjaldandi hefur greitt virðisaukaskatt í gegnum heimabanka vill ríkisskattstjóri koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri:
- Um álag í virðisaukaskatti gilda ákvæði 27. gr. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
- Um hvað teljist fullnægjandi skil á virðisaukaskatti er fjallað í 9. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti. Í 1. tölul. 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að það teljist fullnægjandi skil á virðisaukaskatti ef greitt er í banka, sparisjóði eða pósthúsi í síðasta lagi á gjalddaga.
Að áliti ríkisskattstjóra eru skil fullnægjandi ef greitt er í heimabanka enda séu önnur skilyrði ákvæðisins uppfyllt. Samkvæmt upplýsingum frá bönkum, S og R eru færslur sem berast eftir kl. 21 bókaðar á næsta bankadag.
Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, þá ber að skila virðisaukaskatti ásamt virðisaukaskattsskýrslu eigi síðar en á gjalddaga. Það er álit ríkisskattstjóra að hafi skýrsla ekki borist skattstjóra, innheimtumanni, banka, sparisjóði eða pósthúsi á gjalddaga séu skil ekki fullnægjandi.
Með vísan til framanritaðs eru það fullnægjandi skil ef gjaldandi færir greiðsluna í gegnum heimabanka sinn í síðasta lagi kl. 21. á gjalddaga virðisaukaskatts enda hafi hann séð til þess að fullnægjandi virðisaukaskattsskýrsla berist í síðasta lagi á gjalddaga til þar til bærra aðila.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir