Dagsetning Tilvísun
3. apríl 1990 38/90
Virðisaukaskattur af starfsemi Landsbókasafnsins.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 20. mars sl., þar sem spurt er hvort starfsemi Landsbókasafns Íslands sé undanþegin virðisaukaskatti.
Samkvæmt 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er starfsemi bókasafna undanþegin virðisaukaskatti. Það ber þó að taka fram að starfsemi bókbandsstofu, þótt hún fari fram innan bókasafns, er virðisaukaskattsskyld starfsemi en hún getur ekki talist vera nauðsynlegur þáttur í starfsemi bókasafna. Um útreikning virðisaukaskatts af starfseminni vísast til reglug. nr. 562/1989.
Enn fremur er spurt hvort innheimta beri virðisaukaskatt af sölu ljósrita. Eftir bréfinu að dæma virðist vera um að ræða ljósritun á gögnum í vörslum bókasafnsins og því ekki á færi. annarra að láta af hendi slík ljósrit. Samkvæmt framansögðu ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af slíkri sölu.
Sala á bókaskrám og árbókum er virðisaukaskattsskyld starfsemi ef slík útgáfa stendur undir kostnaði. Ef útgáfan stendur hins vegar ekki undir kostnaði þá ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af sölunni. Hjálagt sendist til frekari fróðleiks bréf um virðisaukaskatt af tímaritum.
Virðingarfyllst
f.h. ríkisskattstjóra
Jón Guðmundsson
forstöðum. gjaldadeildar