Dagsetning                       Tilvísun
14. apríl 1990                             44/90

 

Bókhaldslegir þættir varðandi virðisaukaskatt.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 7. nóv. 1989, þar sem gerð er grein fyrir hugsanlegum færsluaðferðum félagsins varðandi virðisaukaskatt. Í bréfinu er leitað álits ríkisskattstjóra á því hvort það falli að reglugerð um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila að færa á sömu gjaldareikninga í bókhaldi innkaup með og án virðisaukaskatts.

Til svars erindinu skal tekið fram að engin ákvæði eru í reglugerð nr. 501/1989 þess efnis að skylt sé að halda aðgreindum gjaldareikningum vegna virðisaukaskattsskyldra innkaupa og innkaupa sem undanþegin eru samkvæmt 12. gr. laga nr. 50/1988. Þetta gildir þó því aðeins þegar notuð er aðferð 1. mgr. 24. gr. reglugerðarinnar, þ.e. skattfjárhæðir færðar á innskattsreikning samtímis færslum á gjaldareikninga. Sé aðferð 2. mgr. notuð, þ.e. fært á skattreikningana með afreikningsaðferð, verður að vera hægt að reikna skattfjárhæðirnar beint út frá reikningum bókhaldsins yfir kaup skattskyldrar vöru og þjónustu. Er þá óheimilt að færa skattskyld innkaup og innkaup sem undanþegin eru skv. 12. gr. á sama reikning.

Eins og fram kemur í bréfi yðar ber að halda sölureikningum aðgreindum eftir því hvort um er að ræða skattskylda eða undanþegna sölu.

Samkvæmt framansögðu virðist aðferð yðar við færslu á gjaldaliðum samrýmast reglugerð nr. 501/1989 um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.