Dagsetning Tilvísun
21. maí 2003 1033/03
Efni: Virðisaukaskattur – sérfræðiþjónusta – samkeppni – vsk-skyld eigin þjónusta – endurgreiðsla til opinberra aðila
Breytingar á reglugerðum nr. 562/1989 og nr. 248/1990.
Athygli skattstjóra er vakin á breytingum sem 30. apríl s.l. voru gerðar á reglugerðum nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana og nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Breytingin á fyrrnefndu reglugerðinni var gerð með reglugerð nr. 298/2003, en á hinni síðarnefndu með reglugerð nr. 287/2003. Breytingarnar eru samkynja og taka annars vegar til afmörkunar sérfræðiþjónustu og hins vegar til skilgreiningar á því hvenær samkeppni telst vera til staðar.
Eftir breytingarnar er afmörkun sérfræðiþjónustu sett fram með sama orðalagi í báðum reglugerðunum. Orðalagið er: „Þjónusta verkfræðinga, tæknifræðinga, arkitekta, lögfræðinga, löggiltra endurskoðenda, tölvunarfræðinga og annarra sérfræðinga er almennt þjóna atvinnulífinu og lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi eða starfa sannanlega á sviði fyrrgreindra aðila og veita sambærilega þjónustu.“ Ekki er um að ræða efnislega breytingu miðað við þann skilning sem í skattframkvæmd hefur verið lagður í ákvæðin. Orðinu „tölvunarfræðinga“ hefur verið bætt inn í upptalningu sérfræðinga. Að öðru leyti er orðalagið það sama og það var í reglugerð nr. 248/1990. Orðalag reglugerðar nr. 562/1989 hafði ekki fyrr sætt breytingum líkt og reglugerð nr. 248/1990, en er nú fært til sama vegar.
Við skilgreiningar á samkeppni í báðum reglugerðunum er nú bætt orðunum: „Almennt skrifstofuhald, þ.m.t. færsla eigin bókhalds og rafræn gagnavinnsla í eigin þágu, telst ekki vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki.“
Við upphafsorð skilgreiningar á samkeppni í reglugerð nr. 562/1989 er bætt orðinu „virðisaukaskattsskyldum“, sem hljóða þá svo: „Starfsemi telst rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki samkvæmt reglugerð þessari þegar viðkomandi vara eða þjónusta er almennt í boði hjá [virðisaukaskattsskyldum] atvinnufyrirtækjum og skiptir ekki máli í því sambandi hvort eða hve mikið aðili selur af slíkum vörum eða þjónustu til annarra.“
Í ljósi þróunar umræddra ákvæða telur ríkisskattstjóri að eftirfarandi fullyrðingar eigi við:
Sérfræðiþjónusta í skilningi reglugerðanna tekur almennt til þjónustu af þeim toga sem sérfræðingar, er lokið hafa háskólanámi eða sambærilegu langskólanámi, veita á grundvelli menntunar sinnar, hvort heldur sá er þjónustuna innir af hendi hefur slíka menntun eða ekki, en tekur hins vegar ekki til þjónustu sem sérfræðingarnir veita á sviðum er falla utan menntunar þeirra.
Þeir sem falla undir reglugerð nr. 562/1989 þurfa ekki að greiða virðisaukaskatt af vinnu sinni við færslu eigin bókhalds og rafræna gagnavinnslu í eigin þágu.
Þeir sem falla undir reglugerð nr. 248/1990 eiga ekki rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts af aðkeyptri þjónustu við færslu bókhalds síns og af aðkeyptum rafrænum gagnavinnslum í þeirra þágu.
Mið mat á því hvort innri starfsemi er virðisaukaskattsskyld vegna samkeppni við atvinnufyrirtæki ber aðeins að taka mið af samkeppni við virðisaukaskattsskyld atvinnufyrirtæki, en ekki af samkeppni við óskattskyld atvinnufyrirtæki.
Í meðfylgjandi skjali „Sérfræðiþjónusta og samkeppni“ er að finna all ítarlega umfjöllun um þróun ákvæða umræddra reglugerða að því er varðar afmörkun sérfræðiþjónustu og skilgreiningu á samkeppni. Þá er í skjalinu sérstaklega vikið að hugbúnaðargerð og rekstri tölvukerfa. Megininntak þeirrar umfjöllunar er eftirfarandi:
Sérfræðiþjónusta tölvunarfræðinga lítur fyrst og fremst að hugbúnaðargerð. Sérfræðiþjónusta í þessu sambandi telst vinna við alla fjóra þætti hugbúnaðargerðar, þ.e. beitingu vísindalegra aðferða við; greiningu, svo sem þarfagreiningu, kerfisgreiningu, áhættugreiningu og greiningu reiknirita, hönnun, svo sem kerfishönnun, viðmótshönnun og gagnaskipan (hönnun gagnalíkana og safnkerfa), forritun, þ.e. beitingu forritunarmáls, prófanir forrita.
Sérfræðiþjónustan tekur jafnt til nýsmíði og viðhalds hugbúnaðar, þ.m.t. staðfærslu staðlaðs hugbúnaðar að þörfum notenda. Þá teljast til sérfræðiþjónustu öryggisúttektir á tölvukerfum.
Til skattskyldrar eða endurgreiðslukræfrar þjónustu telst hins vegar ekki skráning og önnur innfærsla upplýsinga í tölvukerfi, vinnslur sem í kerfunum fara fram sem liður í reglubundinni starfsemi fyrirtækis eða stofnunar, svo og notendaaðstoð af þeim toga sem almennt er og venjulegt að fari fram í fyrirtækjum og stofnunum sem liður í þeirra starfsemi. Sama á við um daglegan rekstur stoðkerfa, svo sem stýrikerfa, gagnagrunna, öryggiskerfa, skrifstofukerfa og verkbókhalds. Ennfremur uppsetning vélbúnaðar, þ.m.t. uppsetning net-, skráa-, vef-, prent- og gagnagrunnsþjóna. Slík innri þjónusta telst ekki vera í samkeppni við þjónustu sem atvinnufyrirtæki veita í þeim skilningi sem þykir bera að leggja í hugtakið samkeppni í þessu sambandi.
Til staðar eru atvinnufyrirtæki sem almennt bjóða fram sérfræðiþjónustu sína við gerð og viðhald hugbúnaðar. Raunin kann að vera sú að notendur stórtölva kjósi að þjónusta sig sjálfir fremur en að kaupa þjónustu á sviði hugbúnaðar af atvinnufyrirtækjum og þar af leiðandi lítið eða ekkert um það að atvinnufyrirtæki selji slíka þjónustu við stórtölvur. Engu að síður verður að telja eigin þjónusta stórtölvunotenda vera í samkeppni við þjónustu atvinnufyrirtækja.
Virðingarfyllst
f. h. ríkisskattstjóra
Sigurjón Högnason
Guðrún Þorleifsdóttir