Hrafnista                                                        21. apríl 1997                                     Alm 24/97
b.t. Ásgeirs Ingvasonar, fjármálastjóra
Laugarás,
104 Reykjavík

 

Mötuneyti – blandað uppgjör

Vísað er til bréfs yðar, dags. 19. mars s1. og samtals 16. apríl, varðandi reiknireglur við virðisaukaskattsuppgjör mötuneytis. Í bréfinu kemur fram að til skoðunar sé að mötuneyti Hrafnistu selji frá sér máltíðir til Hjúkrunarheimilins Skógarhlíð. Fram kom í samtali og á myndsendu vinnublaði að við virðisaukaskattsuppgjör hefur skattur hingað til verið reiknaður af launakostnaði mötuneytis að viðbættu álagi (1,3) og teknu tilliti til hlutfalls fæðisdaga starfsmanna af heildarfæðisdögum en útskattur af öðrum liðum er jafn innskatti. Þetta er í samræmi við leiðbeiningar ríkisskattstjóra um þau tilvik þegar söluverð máltíða er undir framleiðslukostnaðarverði.

Í bréfinu er óskað eftir samþykki ríkisskattstjóra við útreikning innskatts vegna sölu á máltíðum til Skógarhlíðar. Virðist þá gert ráð fyrir tvenns konar uppgjöri frá mötuneyti. Annars vegar uppgjöri gagnvart afhendingu fæðis innan stofnunar á þann veg sem lýst er hér að ofan og hins vegar sérstöku uppgjöri vegna sölu til Skógarhlíðar þar sem útskattur reiknist af sölutekjum en innskattur skv. formúlunni:

(Máltíðir seldar út/ Máltíðir innan stofnunar + Máltíðir seldar út) * innsk. af hráefni

Ríkisskattstjóri telur rétt að fara með alla afhendingu fæðis gegn endurgjaldi með sama hætti í samræmi við áður útgefnar leiðbeiningar (6. desember 1995). Því skal fyrst athuga hvort heildarsölutekjur eru umfram framleiðslukostnað vegna skattskyldrar afhendingar. Sé svo ekki skal reiknað nýtt hlutfall skattskyldra fæðisdaga þar sem tekið er tillit til þeirra máltíða sem seldar eru til Skógarbæjar. Formúla fyrir hlutfall skattskyldra fæðisdaga verður þá þannig (Fd. = fæðisdagar):

(Fd. starfsm. + Fd. Skógarbæ) / Fd. alls

Séu skattskyldir fæðisdagar t.d. 100 og óskattskyldir fæðisdagar 900 reiknast hlutfallið þannig: Hlutfall = 100 skattskyldir fæðisdagar / 1000 fæðisdagar alls = 0,10
Ef við bætast 100 skattskyldar máltíðir á dag verður reiknað þannig:

Hlutfall = (100 + 100) skattskyldir fæðisdagar / 1100 fæðisdagar alls = 0,18

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Jón H. Steingrímsson