Dagsetning                       Tilvísun
14. apríl 1990                              52/90

Virðisaukaskattur af starfsemi heilsuræktarstofu.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 5. janúar 1990, þar sem óskað er eftir upplýsingum um virðisaukaskatt af starfsemi heilsuræktarstofu.

Til svars erindinu skal tekið fram að aðgangseyrir að heilsuræktarstofum er undanþeginn virðisaukaskatti skv. 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga. Að mati ríkisskattstjóra fellur aðgangur að líkamsræktartækjum, sturtu, nuddpotti og gufubaði undir undanþágu þessa, hvort sem þessi þjónusta er seld sérstaklega eða innifalin í almennum aðgangseyri.

Nuddþjónusta er virðisaukaskattsskyld og skiptir ekki máli þótt hún sé veitt í tengslum við starfsemi heilsuræktarstofu. Þjónusta löggiltra sjúkranuddara er þó undanþegin virðisaukaskatti ef fyrir liggur tilvísun frá lækni og/eða hluti þjónustunnar er greiddur af Tryggingastofnun ríkisins.

Innheimta skal og skila virðisaukaskatti af aðgangseyrir að ljósabekkjum, hvort sem sú þjónusta er seld sérstaklega eða ekki.

Loks skal tekið fram að sala á snyrtivörum er virðisaukaskattsskyld.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.