Póst- og Fjarskiptastofnun 14. júlí 1997 Tsk. 1997-01652.0
v.t. Gústav Arnar Vsk/alm 49/97
Samgönguráðuneytið
Hafnarhúsinu
v/Tryggvagötu
150 REYKJAVÍK
Ríkisskattstjóri hefur móttekið þann 10. mars 1997 erindi yðar varðandi starfsemi erlendra fjarskiptafyrirtækja á Íslandi.
Í erindi yðar kemur fram að samkvæmt íslenskum fjarskiptalögum er heimilt að veita aðilum með staðfesturétt á evrópska efnahagssvæðinu leyfi til að veita ákveðnar tegundir fjarskiptaþjónustu. Mun Póst- og fjarskiptastofnun veita rekstrarleyfi en leyfishöfum ber að greiða 0,25% af bókfærðri veltu í rekstrargjald. Í bréfinu segir:
“Spurning hefur vaknað um það með hvaða hætti verði hægt að tryggja innheimtu rekstrargjaldsins, þegar í hlut eiga erlend fyrirtæki.”
Síðar segir að “heimilt sé samkvæmt lögum að setja skilyrði fyrir leyfisveitingu, sem m.a. kveði á um að erlendir rekstrarleyfishafar setji upp starfstöð hér á landi eða hafi fulltrúa með umboð til að koma fram fyrir rekstrarleyfishafa gagnvart notendum hér á landi. Ekki er víst að þetta heimildarákvæði verði notað í öllum tilfellum, enda snerti það fyrst og fremst hagsmuni notenda og svari ekki spurningunni um innheimtu rekstrargjaldsins.
Sjá má fyrir sér tvenns konar útfærslu á fjarskiptarekstri hins erlenda aðila; annars vegar að hann reki almenna fjarskiptaþjónustu hér á landi fyrir Íslendinga jafnt sem aðra og hins vegar að þjónusta sé veitt útlendingum eingöngu. Í fyrra tilvikinu er hinn erlendi aðili væntanlega skuldbundinn til að koma á fót starfstöð á Íslandi og færa bókhald yfir starfsemi sína. Staðfesting óskast á að þessi skilningur sé réttur að mati ríkisskattstjóra. Í seinna tilvikinu má ætla að greiðslur fyrir þjónustu fari fram erlendis sem hluti af starfsemi rekstrarleyfishafa og að allt innheimtukerfi og bókhald sé staðsett þar. Það gæti þá reynst erfitt fyrir Póst- og fjarskiptastofnun að fylgjast með viðskiptum rektrarleyfishafa til þess að geta ákveðið rekstrarleyfisgjaldið, nema með því að setja reglur um framtal tekna af slíkri þjónustu.”
Í erindinu er farið fram á að ríkisskattstjóraembættið gefi upplýsingar um hvaða reglur gildi um hliðstæð mál og/eða hvaða heimildir ríkisskattstjóri hefur til að leggja lögbundin gjöld á erlenda aðila, sem stunda hér á landi hvers konar atvinnustarfsemi án þess að hafa hér starfstöð. Skriflegar reglur eða greinargerð óskast með svari ríkisskattstjóra.
Rétt þykir að skipta svarinu í umfjöllun um tekju- og eignarskatt annars vegar og virðisaukaskatt hins vegar.
Lög um tekjuskatt og eignarskatt.
Samkvæmt 3. tölulið 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt segir að: “Allir aðilar sem fá greiðslur fyrir þjónustu eða starfsemi innta af hendi hér á landi skulu greiða tekjuskatt af þeim tekjum.”
Undir þennan tölulið falla greiðslur fyrir þjónustu og starfsemi sem innt er af hendi hér á landi. Ekki skiptir máli hvort aðili kemur fram á eigin vegum eða í nafni annars eða hvort greiðslan er frá innlendum eða erlendum aðila. Taka ákvæðin bæði til manna og lögaðila. Tekjur að frádregnum þeim frádráttarliðum sem heimilaðir eru skv. 31. gr. sömu laga, hvort sem um er að ræða menn að lögaðila, mynda tekjuskattsstofn. Skatthlutfall er 20% og á það bæði við um lögaðila og menn. Persónuafsláttur er enginn.
Í 4. tölulið 3. gr. áður tilvitnaðra laga segir að:
“Allir aðilar sem reka hér á landi fasta starfstöð, taka þátt í rekstri fastrar starfstöðvar eða njóta hluta af ágóða slíkrar starfstöðvar skulu greiða tekjuskatt af þeim tekjum.”
Undir þennan tölulið falla tekjur af atvinnustarfsemi þeirra sem búsettir eru erlendis og stunduð er á fastri starfstöð hér á landi. Ákvæðið tekur bæði til manna og lögaðila. Við mat á því hvað teljist föst starfstöð þykir mega taka mið af þeim skilgreiningum sem fram koma í þeim tvísköttunarsamningum sem Ísland hefur gert við önnur ríki. Þar er hugtakið föst atvinnustöð skilgreind á þann veg að um sé að ræða fasta atvinnustofnun þar sem starfsemi fyrirtækisins fer að nokkur eða öllu leyti fram og merki einkum aðsetur framkvæmdastjórnar, útibú, skrifstofu, verksmiðju, verkstæði, námu, olíu- eða gaslind, grjótnámu eða annan stað þar sem náttúruauðæfi er nýtt. Tímabundnar framkvæmdir falla almennt ekki undir skilgreiningu fastrar atvinnustöðvar nema um byggingarframkvæmdir eða samsetningarvinnu sé að ræða sem standi yfir lengur en tólf mánuði. Slík starfsemi sem stæði yfir í skemmri tíma félli samkvæmt þessu undir 3. tölulið 3. gr.
Menn sem stunda atvinnurekstur á fastri starfsröð, en dvelja ekki hér á landi greiða sama tekjuskatt og menn sem bera ótakmarkaða skattskyldu en án persónuafsláttar. Hlutfall útsvars er eins og það er ákvarðað í álagningu hjá hverju sveitarfélagi fyrir sig. Hjá félögum er skatthlutfallið sama og hjá félögum sem eru heimilisföst hér á landi.
Eignarskattur reiknast af eignum sem tengjast þessari starfsemi, að frádregnum þeim skuldum einum sem hvíla á eignunum.
Þegar aðilar í ríkjum sem við höfum gert tvísköttunarsamninga við hafa hér á landi tekjur sem falla undir 3. og 4. tölulið 3. gr. getur réttur til skattlagningar fallið í hlut þeirra ríkja. Ákvæði tvísköttunarsamninga um þetta efni geta verið mismunandi. Þarf því að skoða hvert einstakt tilvik til að komast að niðurstöðu um skattlagningarréttinn.
Aðilar sem falla undir ákvæði 3. og 4 töluliðar 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt þurfa að skrá sig á Hagstofu Íslands og fá kennitölu. Af framansögðu er ljóst að um skattskyldu hér á landi er að ræða og þurfa þessir aðilar að skrá sig á Hagstofu eftir atvikum með lögheimili eða á utangarðsskrá og fá kennitölu. Um bókhaldsskyldu fer eftir lögum um bókhald.
Skattlagningarstaður þeirra sem sæta takmarkaðri skattskyldu hér á landi fer eftir ákvæðum laga nr. 75/1981, en hafa ber í huga að skv. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda er réttilega innborguð staðgreiðsla tekjuskatts og útsvars þeirra sem um ræðir 2., 3. og 7. tölul. 71. gr. laga nr. 75/1981, fullnaðargreiðsla nefndra gjalda þessara aðila hér á landi án þess að fram þurfi að fara frekari ákvörðun eða álagning þeirra nema um sé að ræða aðila sem jafnframt eru skattskyldir samkvæmt 4. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981. Þeir sem hér um ræðir þurfa því ekki að skila skattframtali nema þeir óski þess sérstaklega, t.d. vegna þess að þeir telja að þeir hafi ofgreitt skatta sína.
Samkvæmt 9. gr. laga nr. 147/1996 segir í 1. mgr. að fyrir útgáfu rekstrarleyfa og skráningu póstrekenda greiðist gjald til ríkissjóðs samkvæmt lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs. Í 2. mgr. segir ennfremur að rekstrarleyfishafa skuli árlega greiða rekstrargjald sem nemur 0,25 % af bókfærðri veltu. Með bókfærðri veltu er átt við rekstrartekjur sem leyfishafi hefur af leyfisbundinni starfsemi sinni hér á landi.
Í 8. mgr. segir að um álagningu og innheimtu gjalda samkvæmt þessari grein fer eftir ákvæðum VII.-XV. kafla laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á og skulu innheimtuaðilar standa Póst- og fjarskiptastofnun skil á innheimtum gjöldum mánaðarlega.
Lög um virðisaukaskatt
Skattskylda vegna virðisaukaskatts hvílir skv.1. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt á öllum viðskiptum innanlands séu þau ekki sérstaklega undanþegin henni skv. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Veiti erlendur aðili sambærilega þjónustu á sviði fjarskipta og innlent fjarskiptafyrirtæki er slík þjónusta virðisaukaskattskyld hér á landi í sama mæli og hún er það hjá innlenda fyrirtækinu. Sé um það að ræða er hinn erlendi aðili skráningarskyldur vegna starfsemi sinnar hér á landi. Hafi hann ekki útibú eða aðra fasta starfsstöð hér á landi ber honum að tilnefna fyrrirsvarsmann til skráningarinnar Er þá litið svo á að fyrirsvarsmaður beri ásamt hinum erlenda aðila ábyrgð á virðisaukaskattsskilum hans.
F. h. ríkisskattstjóra,
Guðrún W. Jensdóttir,
deildarstjóri alþjóðasviðs tekjuskattsskrifstofu
Jón H. Steingrímsson,
forstöðumaður virðisaukaskattsskrifstofu