Dagsetning                       Tilvísun
25. apríl 1990                              55/90

 

Virðisaukaskattsskylda söluaðila á torgmarkaði.

Að gefnu tilefni þykir rétt að vekja athygli yðar á þeim skyldum sem hvíla á viðskiptamönnum yðar, er leigja sölupláss í Kolaportinu, samkvæmt lögum um bókhald, lögum um virðisaukaskatt og reglugerðum um tekjuskráningu og bókhald sem settar eru á grundvelli ofangreindra laga.

1.0 SKATTSKYLDA

Hægt er að skipta þeirri sölu sem fram fer í Kolaportinu og öðrum torgmörkuðum í þrennt eftir eðli sölu:

l.l Almenn sala

Samkvæmt meginreglu virðisaukaskattslaga nr. 50/1988 með áorðnum breytingum hvílir skylda til að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti í ríkissjóð á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selur eða afhendir vörur eða verðmæti. Skattskyldan nær til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra.

Samkvæmt framansögðu nær virðisaukaskattsskyldan til:

a) Fyrirtækja, þ.m.t. einstaklinga með eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, sem eru með virðisaukaskattsskylda starfsemi fyrir. Skattskyldan breytist ekkert þótt starfsemin eða hluti hennar fari fram á torgmarkaði.

b) Einstaklinga sem eingöngu starfa á torgmarkaði við að selja eigin framleiðslu eða vörur sem aflað er í þeim tilgangi að selja aftur, hvort sem um umboðssölu eða til sölu í eigin nafni er að ræða.

Þeir aðilar sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 155.800 kr. á ári eru þó undanþegnir skyldu til að innheimta virðisaukaskatt. Þeir eru þó eftir sem áður skyldir til að telja tekjur þessar fram til tekjuskatts.

1.2 Sala notaðra muna

Sala á lausafé sem seljandi hefur átt og notað í eigin þágu er ekki virðisaukaskattsskyld, enda teljist salan ekki atvinnurekstur seljanda. Um atvinnurekstur telst vera að ræða þegar hlutar er aflað með það í huga að selja aftur.

Sala á lausafé sem notað hefur verið við virðisaukaskattsskyldan atvinnurekstur seljanda er aftur á móti skattskyld samkvæmt ákvæðum laga um virðisaukaskatt.

1.3 Líknarfélög og önnur félagasamtök

Samkvæmt reglugerð nr. 564/1989, um undanþágu á virðisaukaskatti vegna góðgerðar-starfsemi, getur slík starfsemi fengið undanþágu frá innheimtu virðisaukaskatts þegar um er að ræða basarsölu (flóamarkað), merkjasölu eða aðra slíka starfsemi. Þrjú skilyrði þurfa að vera fyrir hendi:

a) Umsókn um undanþágu, sem berast skal skattstjóra eigi síðar en átta dögum fyrir sölu, hafi verið samþykkt.

b) Salan eigi sér stað aðeins einu sinni í mánuði og vari eigi lengur en 3 daga í hvert sinn.

c) Hagnaðurinn renni að öllu leyti til líknarmála.

Undanþágan nær ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til starfseminnar.

2.0 TEKJUSKRÁNING

2.1 Sjóðvélaskylda

Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 501/1989 skulu smásöluverslanir og aðilar sem nær eingöngu selja til endanlegs neytanda skrá sérhverja afhendingu eða sölu á vörum, verðmætum eða þjónustu til neytenda í sjóðvél jafnskjótt og sala eða afhendingin fer fram. Vélar þessar skulu uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 531/1989, um búnað sjóðvéla. Þeir sem ekki eru sjóðvélaskyldir skulu gefa út sölureikning við sérhverja sölu eða afhendingu á skattskyldri vöru eða þjónustu, sbr. 3.-5. gr. reglugerðar nr. 501/1989.

2.2 Undanþágur frá tekjuskráningu í sjóðvél eða útgáfu reiknings

Ríkisskattstjóri getur, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi, heimilað aðila að færa staðgreiðslusölu sína á staðgreiðslusölulista eða staðgreiðsluyfirlit. Staðgreiðslusölulistar skulu vera fyrirfram tölusettir og í samfelldri töluröð. Á þá skal skrá sérhverja innborgun þ.m.t. greiðslukorti, jafnóðum og sala fer fram svo og samtölu innborgana hvers dags. Heimild ríkisskattstjóra getur verið tímabundin og háð öðrum skilyrðum sem hann setur. Sækja verður um þessa undanþágu til embætti ríkisskattstjóra.

3.0 BÓKHALDSSKYLDA

Aðilar skulu haga bókhaldi sínu í samræmi við lög um bókhald og lög um virðisaukaskatt og þeirra reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli laganna.

4.0 TILKYNNINGARSKYLDA

Virðisaukaskattskyldir aðilar skulu eigi síðar en átta dögum áður en starfsemin hefst tilkynna skattstjóra um starfsemi sína til skráningar, en skattstjóri gefur út staðfestingu á því að skráning hafi átt sér stað og gefur viðkomandi virðisaukaskattsnúmer.

Þess er hér með farið á leit við yður að þér upplýsið viðskiptamenn yðar um framangreind meginatriði. Óski söluaðilar nánari upplýsinga varðandi skyldur sínar er þeim bent á að snúa sér til gjaldadeildar ríkisskattstjóra í símum 623300 eða 624422.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.