Dagsetning                       Tilvísun
7. maí 1990                              57/90

 

Virðisaukaskattur (innskattur) af aðföngum bænda.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 5. febrúar sl. , þar sem spurt er (1) hvernig aukauppgjöri bænda, sbr. l. mgr. 33. gr. laga um virðisaukaskatt, verður hagað og (2) hvernig standa skuli að frádrætti þegar bændur kaupa áburð með afborgunum, þ.e. hvort skatturinn er gerður upp eftir afhendingareglu eða greiðslureglu.

Til svars erindinu skal tekið fram að innskattur af aðföngum sem varða virðisaukaskattsskyldan rekstur kemur til frádráttar útskatti á því uppgjörstímabili þegar þau eru keypt. Nánar tiltekið segir dagsetning reiknings seljanda til um það á hvaða uppgjörstímabili megi nýta frádráttarheimildina. Skiptir ekki máli hvenær eða hvernig greiðsla hans fer fram. Þetta gildir jafnt um kaup ú fjárfestingavörum, svo sem dráttarvélum og öðrum tækjum, og rekstrarvörum, svo sem áburði.

Samkvæmt l. mgr. 33. gr. laga um virðisaukskatt eiga bændur rétt á aukauppgjöri á virðisaukaskatti ef í ljós kemur að þeir eiga kröfu á verulegri endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa á fjárfestinga- og rekstrarvörum. Nánari ákvæði um framkvæmd aukauppgjörs er að finna í 9. gr. reglugerðar nr. 529/1989, um framtal og skil á virðisaukaskatti. Þar kemur fram að skilyrði aukauppgjörs er að útskattur á því tímabili sem beiðni um aukauppgjör tekur til nemi minna en tveim þriðju hlutum innskatts á tímabilinu; innskattur er t.d. 150.000 kr. og verður þá ekki fallist á aukauppgjör nema útskattur á sama tímabili sé undir 100.000 kr.

Hægt er að fá aukauppgjör fyrir tvo eða fjóra fyrstu mánuði hvers sex mánaða uppgjörstímabils. Sá sem fær aukauppgjör fyrir fyrstu tvo mánuðina (janúar-febrúar eða júlí- ágúst) getur fengið annað aukauppgjör fyrir næstu tvo mánuði (mars apríl eða sept.-okt.). Af eðli aukauppgjörs leiðir að slíkt uppgjör verður ekki veitt vegna síðustu tveggja mánuða hvers sex mánaða uppgjörstímabils.

Í aukauppgjöri felst fullkomið uppgjör virðisaukaskatts að því leyti að gera skal upp bæði útskatt og innskatt á því tímabili sem aukauppgjör tekur til eins og um reglulegt uppgjör væri að ræða. Þannig fær bóndi, sem fær aukauppgjör vegna t.d. vélakaupa, endurgreiddan mismun innskatts (kaup vélarinnar og annarra aðfanga) og útskatts (innlegg afurða o.fl.) á tímabilinu.

Ekki er gert ráð fyrir sérstökum umsóknareyðublöðum vegna aukauppgjörs heldur skal sá sem æskir aukauppgjörs fylla út virðisaukaskattsskýrslu (eyðublað RSK l0.08) og skila henni til skattstjóra.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.