Dagsetning Tilvísun
7. maí 1990 60/90
Undanþáguákvæði 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. apríl sl., þar sem óskað er skýringa ríkisskattstjóra á ákvæði 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Samkvæmt umræddu lagaákvæði eru þeir sem selja virðisaukaskattsskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 100.000 kr. á ári undanþegnir skattskyldu samkvæmt lögunum. Fjárhæðin breytist 1. janúar ár hvert í samræmi við byggingarvísitölu. Frá 1. janúar 1990 er hún 155.800 kr. (byggingarvísitala 159,6 stig). Undanþágan tekur aðeins til virðisaukaskatts – eftir sem áður eru aðilar skyldir til að telja tekjur þessar fram til tekjuskatts.
Við mat þess hvort aðili sé undanþeginn skattskyldu á grundvelli þessa ákvæðis ber að líta til heildarsölu hans á skattskyldri vöru og þjónustu. Ef aðili er með starfsemi í mörgum atvinnugreinum er það samtals skattskyld velta í þeim öllum sem segir til um skattskylduna. Hins vegar skiptir ekki máli þótt hann hafi einnig með höndum starfsemi sem undanþegin er virðisaukaskatti.
Samkvæmt framansögðu er það ekki heildarvelta aðila sem hér ræður úrslitum, heldur samtals sala hans á vöru og þjónustu sem skattskyld er samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Um önnur atriði vísast til leiðbeiningarits ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt (RSK 11.l5), bls. 11.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.