Dagsetning                       Tilvísun
7. maí 1990                              61/90

 

Virðisaukaskattur – handiðnaður/listmunavinna.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 16. janúar sl., þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort umbjóðandi yðar (sameignarfélag) sé undanþegin skattskyldu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt á grundvelli 2. tölul. 4. gr. laganna, þ.e. hvort handunnir munir sem hann hannar og smíðar geti talist listaverk í skilningi ákvæðisins.

Erindinu fylgir greinargerð eigenda félagsins og kemur þar fram svohljóðandi lýsing á starfsemi félagsins:

„Þetta fyrirtæki er nær eingöngu í listmunagerð úr tré, góðmálmum og beini. Hver hlutur sem gerður er, er hannaður og smíðaður með tilliti til þess hver komi til með að eiga gripinn. Þetta eru aðallega gripir sem byggja á og höfða til þjóðlegrar hefðar í munstri og formi svo sem útskornir kistlar, askar, trafakefli, lampar, spænir og gestabækur svo eitthvað sé nefnt. Einnig er mikið um að söfnuðir leiti eftir munum í kirkjur og safnaðarheimili svo sem skírnarfontar, moldunarker, númeratöflur, ræðupúlt og minningarstjakar svo fátt eitt sé nefnt. “

Þá fylgja ljósmyndir af nokkrum munum sem unnir hafa verið af fyrirtækinu á undanförnum árum.

Til svars erindinu tekur ríkisskattstjóri fram að undanþáguákvæði 2. tölul. 4. gr. tekur aðeins til listaverka sem falla undir tollskrárnúmer 9701-1000 til 9703.0000. Sala á hvers konar nytjamunum er virðisaukaskattsskyld.

Ríkisskattstjóri leitaði álits ríkistollstjóra á tollflokkun þeirra muna sem er að finna á fyrrnefndum ljósmyndum. Að mati ríkistollstjóra (svarnúmer 900188) falla umræddir munir ýmist í tollskrárnr. 4420.1000, 4420.9009, 9403.6009 eða 9405.2009.

Samkvæmt framansögðu verður ekki talið að umræddir munir séu listaverk sem falli undir undanþáguákvæði laga nr. 50/1988.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.