Dagsetning Tilvísun
7. maí 1990 62/90
Virðisaukaskattur af lögfræðiþjónustu.
Vísað er til bréfs yðar, dags. l. febrúar sl., þar sem þess er óskað að ríkisskattstjóri taki til athugunar nokkur atriði sem varða skattverð samkvæmt lögum nr. 50/1988 (vskl.).
I.
Í bréfi ríkisskattstjóra til félagsins, dags. 17. janúar sl., kemur fram að heimilt er að halda þingfestingargjöldum utan skattverðs sem útlögðum kostnaði þótt frumrit reiknings sé skráð á nafn lögmanns og viðskiptamaður (umbjóðandi) fái frumrit ekki í hendur. Byggist þessi regla á því að um er að ræða opinbera gjaldtöku sem í eðli sínu beinist að málsaðila en ekki umboðsmanni hans.
Að áliti ríkisskattstjóra er rétt að líta svo á að ofangreind regla gildi einnig um sambærilegar greiðslur til ríkis eða sveitarfélaga, enda komi fram á reikningi eða kvittun fyrir viðkomandi gjaldi að það varði viðskiptamann en sé ekki hluti af almennum kostnaði lögmanns. Slík tilvísun getur verið með þeim hætti að vísað er til umbjóðanda eða eignar hans, málanúmers eða annarra slíkra atriða – og er hér í raun og veru um að ræða sambærilegar kröfur og ætla verður að leiði af góðri bókhaldsvenju varðandi viðskiptafærslur. Ætíð er skilyrði að lögmaður endurkrefji viðskiptamann (umbjóðanda) um kostnaðinn án nokkurs álags eða kostnaðar.
Framangreint gildir um greiðslur til stefnuvotta fyrir birtingarkostnað, vottagjöld við dómstólana, stimpilgjöld, hvort sem er við aðfarargerðir eða af stimpilskyldum skjölum, þinglýsingargjöld, vottorð ýmiss konar, t.d. veðbókarvottorð og vottorð frá byggingaryfirvöldum, svo og gjöld fyrir endurrit dóma og úrskurða.
II.
Í bréfi ríkisskattstjóra frá 17. janúar sl. kemur fram að ferðakostnaður telst til skattverðs, nema hægt sé að telja hann útlagðan kostnað, sbr. reglur þar um. Þetta tekur að áliti.ríkisskattstjóra m.a. til þóknunar fyrir notkun eigin bifreiðar – einnig þótt gerður sé sérstakur reikningur vegna aksturs og opinber aksturstaxti notaður. Þessi túlkun byggist á ákvæðum 7. gr. vskl., þar sem fram kemur að skattverð miðast við heildarendurgjald eða heildarandvirði hins selda án virðisaukaskatts, sbr. sérstaklega 2. tölul. 2. mgr., en vakin skal athygli á því að í 2. mgr. felst ekki tæmandi upptalning.
Í þessu sambandi skiptir ekki máli þótt fólksflutningar, þ.e. sú atvinnustarfsemi að flytja fólk, sé undanþegin skattskyldu skv. 3. mgr. 2. gr. vskl. Það gjald sem lögmaður krefur skjólstæðing sinn um vegna notkunar eigin bifreiðar er ekki vegna aksturs hans með skjólstæðing eða aðra farþega, heldur vegna eins þáttar í kostnaði hans við starfsemi sína. Allur slíkur kostnaður, sem kaupandi vöru eða skattskyldrar þjónustu er krafinn um, myndar stofn til virðisaukaskatts.
Þá hefur það ekki áhrif á reglur um skattverð þótt virðisaukaskattur vegna kostnaðar við fólksbifreið sé ekki frádráttarbær, sbr. 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. vskl. Að baki 6. tölul. býr sú staðreynd að algengt er að fólksbifreiðar séu bæði notaðar í tengslum við atvinnurekstur og til einkanota. Með takmörkun á innskattsfrádrætti er komist hjá erfiðri og án efa oft umdeilanlegri skiptingu á notkun fólksbifreiðar í þessa tvo flokka. Af þessu ákvæði verður hins vegar ekki dregin sú ályktun að kostnaður við fólksbifreið falli utan hinnar afdráttarlausu reglu 7. gr. vskl.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.