Katrín H. Árnadóttir                                            12. janúar 1999                                    TSK/Alm02
Alm 01/99
Hafnargötu 90,
230 Keflavík

 

Vísað er til bréfs yðar, dags. 28. október 1998, þar sem þér leggið fram tvær spurningar um skattalega meðferð tekna í Styrktarsjóð Karenar Eir, kt. 451197-2239, Stafnesvegi 22, Sandgerði. Með bréfinu fylgdu lög Styrktarsjóðs Karenar Eir, skráning í þjóðskrá og geisladisksumslag.

Í fyrirspurn kemur eftirfarandi fram:

Óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á neðangreindum fyrirspurnum:

  1. Virðisaukaskattsstofn. Fólk styrkir sjóðinn með framlagi að lágmarki 2.900 kr. og fær síðan geisladiskinn sendan í pósti að gjöf. Geisladiskurinn er seldur í verslunum fyrir kr. 900 með vsk. Spurt er hvort framlag fólks til styrktar sjóðnum sé virðisaukaskattsskyld og ef svo er hver skattstofninn sé af hverjum disk.
  1. Tekju- og eignarskattsstofn. Sjóðurinn hefur það að markmiði að styrkja útgáfu á barnaefni fyrir heyrnalaus börn s.s. túlkun á barnaleikritum, útgáfu barnabóka á táknmáli, túlkun á barnaefni í sjónvarpi o.s.frv. Allur ágóði sem kemur fram af geisladiskum s.s. stefgjöld munu renna í sjóð Karenar Eir. Spurningin hér er hvort sjóður þessi falli undir 6. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981 með áorðnum breytingum.

Svar ríkisskattstjóra

Vegna virðisaukaskatts:

Ríkisskattstjóri lítur svo á að styrkur til sjóðsins í þessu tilfelli kr. 2.000 og gjald fyrir diskinn sé kr. 900. Skattverð hvers geisladisks er því 80,32% af 900 krónum eða kr. 723. Ekki ber að innheimta virðisaukaskatt af styrknum enda sé hann skýrt aðgreindur á reikningi frá verði geisladisksins.

Vegna tekju- og eignarskatts:

Fram kemur í lögum félagsins frá nóvember 1997 að “tilgangur sjóðsins er að efla túlkun á barnaefni fyrir heyrnarlaus börn, eins og túlkun á barnaefni í sjónvarpi, túlkun á barnaleikritum, táknmálsbarnabækur og fleira. “ Félagið er skráð sem Minningar- og styrktarsjóður.

Eins og tilgangi félagsins og áformum um ráðstöfun tekna er lýst má líta svo á að ákvæði 5. tölul. 4. gr. laga nr. 75/1981 eigi við um félagið, þ.e.a.s. að um starfsemi í þágu almannaheilla sé að ræða. Félagið er því undanþegið tekju- og eignarskattsskyldu.

Bent skal á að samkvæmt 91. gr. laga nr. 75/1981 ber slíku félagi samt sem áður að gera árlega grein fyrir ársafkomu sinni í formi skattframtals. Einnig ber félaginu að sæta álagningu á fjármagnstekjuskatti á vexti, arð o.fl. í samræmi við reglur þar um í 3. mgr. 72. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 10. gr. laga nr. 97/1996.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir

Óskar Páll Óskarsson

 

Afrit sent: Skattstofu Reykjanesumdæmis, Suðurgötu 14, 220 Hafnarfjörður.