Dagsetning                       Tilvísun
7. maí 1990                              64/90

 

Virðisaukaskattur – refa- og minkaveiðar.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 30. janúar 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort virðisaukaskattur leggist á þóknanir og verðlaun fyrir refa- og minkaveiðar.

I.

Í lögum nr. 52/1957, um eyðingu refa og minka, kemur fram að séhver sveitarstjórn eða stjórn upprekstrarfélags skal sjá um grenja- og minkaleitir innan sveitarfélagsins og sjá um vinnslu grenja og minkabæla. Til þessara starfa skulu ráðnir sérstakir veiðimenn.

Um greiðslur til veiðimanna segir í bréfi yðar að þeim séu greidd laun samkvæmt reikningi og er oftast miðað við ákveðna upphæð á unna klukkustund við leit og veiðar. Veiðistjóri ákveður árlega hver viðmiðunartaxti skuli vera og endurgreiðir ríkissjóður 3/4 hluta þess kostnaðar ári síðar, eftir að veiðistjóri hefur yfirfarið reikninga og veiðiskýrslur. Greiði sveitarfélag hærri taxta en veiðistjóri ákveður ber það sjálft umframkostnaðinn. Allur kostnaður annar en aksturskostnaður er innifalinn í taxtanum og því er litið á veiðarnar sem verktakavinnu. Veiðimönnum er greiddur aksturskostnaður samkvæmt reikningi og miðast hann við gjaldskrá þá sem ferðakostnaðarnefnd ríkisins ákveður. Til viðbótar þessum greiðslum fá veiðimenn verðlaun fyrir hvern unnin mink eða ref. Landbúnaðarráðherra ákveður fjárhæð verðlauna.

Að mati ríkisskattstjóra verður starfsemi veiðimanna þessara ekki felld undir neitt undanþáguákvæði 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Þóknun þeirra er m.a. ætluð fyrir þeim kostnaði sem þeir hafa af veiðunum, þ.e. um er að ræða verktakagreiðslur. Verður samkvæmt þessu að telja umræddar veiðar stundaðar í atvinnuskyni, sbr. 1. tölul. l. 2. mgr. 3. gr. laganna. Veiðimönnum ber því að innheimta og skila virðisaukaskatti af heildarendurgjaldi fyrir veiðarnar. Til heildarendurgjalds telst (a) þóknun fyrir vinnu, (b) greiðslur fyrir akstur og (c) verðlaun fyrir unnin dýr. Vakin skal athygli á því að aðili er undanþeginn skattskyldu samkvæmt lögunum ef samtals virðisaukaskattsskyld sala hans nemur lægri fjárhæð en 155.800 kr. á ári (miðaá við byggingarvísitölu 1. janúar 1990).

II.

Þeir sem vinna ref eða mink fyrir tilviljun, svo sem rjúpnaskyttur eða börn og unglingar, fá sömu verðlaun og veiðimenn. Þessir aðilar eru ekki skattskyldir samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, enda er ekki um að ræða atvinnustarfsemi þeirra.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.