Dagsetning                       Tilvísun
7. maí 1990                              65/90

 

Virðisaukaskattur – hljómplötuútgáfa.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 29. janúar 1990, þar sem fram kemur að starfsemi fyrirtækisins er fólgið í útgáfu á sviði tónlistar og myndbanda. Í bréfinu segir:

„Óskað er eftir skriflegu svari frá embættinu vegna meðferðar virðisaukaskatts vegna tónlistarmanna sem spila inn á hljómplötur á vegum útgáfunnar. Einnig hvernig fara beri með utanaðkomandi upptökumenn og þegar tónlistarmenn sjálfir eru upptökustjórar á sinni eigin tónlist. Í öllum tilvikum er gerður samningur milli útgefanda og flytjanda þar sem kveðið er á um að flytjandi sé verktaki en ekki starfsmaður útgáfunnar.“

Til svars erindinu skal tekið fram að starfsemi tónlistarmanna, þ.e. flutningur eigin tónlistar eða annarra, er undanþegin skattskyldu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt (12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988). Undanþágan tekur jafnt til flutnings tónlistar á sviði og í hljóðveri. Af þessu leiðir að greiðslur útgefanda hljómplötu til tónlistarmanna fyrir tónlistarflutning eru án virðisaukaskatts.

Upptökustjórn er skattskyld starfsemi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Hins vegar þarf að kanna hverju sinni hvort greiðsla fyrir stjórn upptöku er launagreiðsla eða greiðsla til verktaka. Að áliti ríkisskattstjóra eru greiðslur til manna, sem fá aðstöðu til verks hjá kaupanda þjónustunnar ásamt aðstoð frá launuðum starfsmönnum hans og þurfa sjáanlega ekki að hafa neinn kostnað við verkið, launagreiðslur en ekki greiðslur til verktaka. Öðru máli gegnir um þá aðila sem taka að sér verkefni og leggja fram tæki við upptöku og gerð hljómplötu, húsnæði eða annast aðra aðstöðusköpun og bera fjárhagslega áhættu vegna starfsemi sinnar. Greiðslur til slíkra aðila eru í eðli sínu verktakagreiðslur. Þeir sem teljast hafa sjálfstæða starfsemi með höndum samkvæmt framansögðu (verktakar) eiga að innheimta virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir þjónustu sína, enda nemi skattskyld sala þeirra meiru en 155.800 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu l. janúar 1990). Framanritað á einnig við um tónlistarmenn sem taka að sér upptökustjórn á eigin tónlist ef þeir fá sérstaklega greitt fyrir þau störf.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.