Dagsetning                       Tilvísun
7. maí 1990                              67/90

 

Virðisaukaskattur – viðhald skipa.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 18. janúar sl. , þar sem spurt er hvort sú starfsemi að hreinsa tanka, svelgi, vélarbotna o. fl. í bátum og skipum falli undir undanþáguákvæði 12. gr. laga um virðisaukaskatt.

Til svars erindinu skal tekið fram að viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip er undanþagin skattskyldri veltu, sbr. 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Undanþágan nær þó ekki til skemmtibáta. Sú starfsemi sem um ræðir í bréfi yðar telst viðhaldsvinna við skip í skilningi þessa lagaákvæðis.

Samkvæmt framansögðu á ekki að reikna útskatt af sölu þjónustu yðar til útgerðaraðila – nema þegar um skemmtibáta er að ræða. Undanþáguákvæðið nær ekki til þess tilviks þegar þjónustan er seld til annarra aðila en útgerðar, t.d. skipasmíðastöðvar eða annars aðalverktaka.

Til staðfestingar undanþágunni ber yður að geta þess á reikningi við hvaða skip var unnið og skal útgerðaraðili eða yfirmaður skips staðfesta með yfirlýsingu og áritun sinni á afrit reiknings að vinnan varði skip hans.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.