Dagsetning                       Tilvísun
17.02.2004                              01/04

 

Félagsheimili – gistiþjónusta – leiga tjaldstæða – aðgöngumiðasala – innskattsréttur

Þann 4. janúar s.l. barst ríkisskattstjóra í tölvupósti frá yður svohljóðandi fyrirspurn:

Félagsheimilið Þjórsárver, kt. 710269-3009, hefur starfað í meira en fjörutíu ár, að mestu í þágu félags- og menntamála innansveitar í Villingaholtshreppi, en einnig verið lítillega nýtt til útleigu. Á seinni árum hefu þáttur útleigu farið nokkuð vaxandi um leið og búið hefur verið frekar í haginn fyrir slíkt á staðnum. Nú er staðurinn að verða vinsæll til ættarmóta og skólaferða og tekjur aukast. Við höfum sótt um leyfi til reksturs gistiskála í húsinu og verður gengið frá því á næstunni. Hingað til hefur verið innheimtur 24,5% virðisaukaskattur af allri útleigu. Við nánari skoðun virðist þó að sá þáttur sem mest eykst nú hjá okkur sé skammtímagistingar á tjaldsvæðum og í húsinu. Mér sýnist að sú notkun falli í 14% flokk, en vil samt fá staðfestingu á því.
Óska ég eftir umsögn ykkar varðandi skattskyldu eftirfarandi notkunar:
a) Ættarmót. Hópur sem leigir staðinn yfir eina helgi. Gert er verðtilboð fyrir hverja leigu og samningur undirritaður. Hópurinn kemur á föstudagskvöldi og fer fyrripart sunnudags. Gist er bæði á tjaldsvæðum og í svefnpokaplássi í húsinu. Aðstaða nýtt í húsi og á lóð til matar, leikja og mannamóta, en hópurinn sér algjörlega um sig sjálfur, t.d. hvað varðar matseld.
b) Nemendaráð framhaldsskóla leigir húsið yfir einn sólarhring fyrir kvöldvöku og gistingu (ekki dansleikur). Gert er verðtilboð og samningur undirritaður. Hópurinn kemur seinnipart laugardags og fer fyrripart sunnudags. Gist er í svefnpokum í húsinu. Hópurinn sér um sig sjálfur, t.d. með matseld.
c) Leiga tjaldstæða til einstaklinga yfir eina nótt.
d) Leiga svefnpokapláss í samkomuhúsinu til einstaklings yfir eina nótt.
e) Aðgöngumiðasala á tónleika, leikrit, handverkssýningar og aðra menningarviðburði (ekki dansleiki). Miðasölu er eingöngu ætlað að standa undir útlögðum kostnaði.

Jafnframt óskuðuð þér eftir upplýsingum um það hver væri réttur félagsheimilisins til innskattsfrádráttar.

Til svars við fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:

Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint í 2. gr. vsk-laga. Sviðið er markað mjög rúmt. Tekur það til allra vara og verðmæta og til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tiltekin undanþegin í 3. mgr. greinarinnar. Sú málsgrein hefur að geyma tæmandi talningu þeirrar vinnu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti, eins og skýrt kemur fram í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 50/1988. Undanþágurnar fela í sér undantekningar frá meginreglu um skattskyldu og ber sem slíkar að skýra þröngt og aldrei rýmri skýringu en orðalag ákvæðanna beinlínis gefur tilefni til.

Í 3. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt (vsk-laga) er kveðið á um virðisaukaskattsskyldu bæði manna og lögpersóna. Í 2. tölul. 1. mgr. greinarinnar er sett fram sú regla að skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvíli á samvinnufélögum, svo og öðrum félögum og stofnunum, enda þótt þau séu undanþegin skattskyldu samkvæmt lögum nr. 90/2003,um tekjuskatt og eignarskatt, eða sérstökum lögum, að því leyti sem þessir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Skattskyldan tekur einnig til þess þegar einungis er selt félagsmönnum eða eingöngu eru seldar skattskyldar vörur og þjónusta félagsmanna.

Hver sá sem skattskyldur er skv. 3. gr. skal ótilkvaddur og eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst að tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá skattstjóra þar sem hann er heimilisfastur. Skattstjóri metur hvort öll skilyrði til skráningar á grunnskrá virðisaukaskatts eru fyrir hendi.

Verður nú hverjum lið fyrirspurnarinnar svarað:

Liðir a), b), c) og d)
Samkvæmt 2. málsl. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. vsk-laga er útleiga hótel- og gistiherbergja og útleiga tjaldstæða skattskyld, svo og önnur gistiþjónusta þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar. Innheimta ber 14% virðisaukaskatt af gistiþjónustu, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 14. gr. vsk-laga. Þegar gisting er seld ásamt eldunaraðstöðu verður að telja að eldunaraðstaðan sé hluti af gistiþjónustunni og því skattskyld í sama hlutfalli. Sú leiga sem talin er upp í liðum a), b), c) og d) er að áliti ríkisskattstjóra gistiþjónusta sem ber 14% virðisaukaskatt.

Liður e)
Í fyrirspurninni kemur ekki fram hvort það er félagsheimilið sjálft sem stendur fyrir samkomum, sem þessum, og innheimtir aðgangseyri eða hvort félagsheimilið leigir húsið út til samkomuhaldara.

Aðgangseyrir að hvers konar samkomum er almennt virðisaukaskattsskyldur. Skv. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. vsk-laga er þó starfsemi safna undanþegin virðisaukaskatti, svo sem bókasafna, listasafna og náttúrugripasafna, og hliðstæð menningarstarfsemi. Sama gildir um aðgangseyri að tónleikum, íslenskum kvikmyndum, listdanssýningum, leiksýningum og leikhúsum, enda tengist samkomur þessar ekki á neinn hátt öðru samkomuhaldi eða veitingastarfsemi.
Fyrri málsliður ákvæðisins felur í sér að ekki er lagður virðisaukaskattur á aðgangseyri að söfnum og annað endurgjald fyrir þjónustu safna og aðila sem hafa með höndum hliðstæða menningarstarfsemi. Aðeins starfsemi, sem getur talist nauðsynlegur þáttur í starfsemi safns, er undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt ákvæðinu. Undanþága skv. 2. málslið nær aðeins til sýninga, samkoma og annarra skemmtana sem sérstaklega eru taldar upp í lagaákvæðinu. Greiða skal virðisaukaskatt af aðgangseyri að öðrum skemmtunum og samkomum enda sé um atvinnustarfsemi að ræða. Skilyrði fyrir undanþágu skv. 2. málslið 4. tölul. er að samkoma sé ekki í neinum tengslum við annað samkomuhald eða veitingastarfsemi. Innheimta skal virðisaukaskatt af heildarandvirði aðgöngumiða ef skemmtun samanstendur af skattskyldri skemmtun og undanþeginni skemmtun. Að sama skapi er heildarandvirði aðgöngumiða virðisaukaskattsskylt ef samkoma sem ekki fellur undir undanþáguákvæðið er auglýst eða kynnt á annan hátt samhliða undanþeginni samkomu og hún haldin samhliða, á undan eða á eftir undanþeginni samkomu þannig að í raun sé um samfellda samkomu að ræða. Skiptir þá almennt ekki máli hvort aðgangur er seldur sérstaklega að hinni undanþegnu samkomu eða sami aðgöngumiði gildi. Samkoma fellur ekki undir undanþáguákvæðið ef veitingar eru seldar eða framreiddar á meðan dagskrá samkomu stendur. Veitingasala utan þess salar, þar sem tónleikar eru haldnir, kvikmynd sýnd o.s.frv., hefur ekki áhrif á undanþáguna. Innheimta skal virðisaukaskatt ef samkoma fer fram í veitingahúsi með reglulega starfsemi. Ef selt er inn á sýningu og veitingar eru innifaldar í aðgangseyri ber að innheimta virðisaukaskatt af heildarverði aðgöngumiða.

Ef félagsheimilið leigir húsið út undir samkomur, sem eru á vegum annarra, þá er slík aðstöðuleiga skattskyld skv. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. vsk-laga. Í 8. tölul. kemur fram að fasteignaleiga og útleiga bílastæða sé undanþegin virðisaukaskatti. Sala á aðstöðu fyrir veitingar og samkomur er hins vegar virðisaukaskattsskyld ef leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar.

Um innskattsrétt félaga, sem undanþegin eru tekjuskatti og eignarskatti, gilda sérstakar reglur og eru þær tíundaðar í 10. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt. Þar segir í 1. mgr. að félög, sem þessi, megi einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum og rekstrarfjármunum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu. Það þýðir að félag getur hvorki talið til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum og rekstrarfjármunum sem varða bæði sölu á skattskyldri vöru og þjónustu sem er undanþegin virðisaukaskatti né aðföngum og rekstrarfjármunum sem varða bæði sölu á skattskyldri vöru og þjónustu og eigin not.

 

Virðingarfyllst

f. h. ríkisskattstjóra

Guðrún Þorleifsdóttir

Guðlaug M. Valdemarsdóttir