Dagsetning Tilvísun
06.04.2004 03/04
Virðisaukaskattsskylda – útgáfustarfsemi félagasamtaka.
Með bréfi dagsettu 31. mars 2004 framsendi fjármálaráðuneytið til ríkisskattstjóra erindi samtakanna, sem fram eru sett í tveimur bréfum þeirra dagsettum 17. mars 2004. Erindin varða hugsanlega virðisaukaskattsskyldu samtakanna vegna útgáfu bóka. Ráðuneytið framsendi erindin á þeirri forsendu að undir skattyfirvöld heyri mat á því hvort tiltekin starfsemi sé virðisaukaskattsskyld.
Af framangreindu tilefni vill ríkisskattstjóri koma eftirfarandi á framfæri varðandi virðisaukaskattsskyldu við þær aðstæður sem í erindunum er lýst.
Í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga), er skattskyldusvið virðisaukaskatts markað. Tekur það m.a. til allra vara. Sala bóka fellur þannig ótvírætt undir skattskyldusviðið. Í 3. gr. vsk-laga er kveðið á um það, á hverjum hvíli almennt skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð. Í 5. gr. laganna eru ákvæði um skyldu þeirra, sem falla undir skattskyldu skv. 3. gr., til að tilkynna sig til skráningar á grunnskrá virðisaukaskatts. Eðli máls samkvæmt eru ákvæði þessi efnislega samofin. Meginreglan um virðisaukaskattsskyldu er að slík skylda hvílir á þeim sem í atvinnuskyni selja vörur eða þjónustu sem fellur undir skattskyldusviðið. Ennfremur hvílir skylda til að innheimta og skila virðisaukaskatti á félögum og stofnunum, enda þótt þau séu undanþegin tekju- og eignarskatti, að því leyti sem þau selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Af fyrirliggjandi upplýsingum má ætla að Tourette samtökin á Íslandi séu undanþegin tekju- og eignarskatti á þeirri forsendu að samtökin verji hagnaði sínum til almenningsheilla og hafi það að einasta markmiði sínu. Án þess að afstaða sé hér tekin til þess álitaefnis er svar þetta miðað við þá forsendu. Þannig er gengið út frá því að jafnvel þótt bókaútgáfa samtakanna kunni að vera með þeim hætti að hún teljist ekki atvinnustarfsemi, þá geti samtökin verið virðisaukaskattsskyld vegna samkeppnissjónarmiða.
Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. vsk-laga ber hverjum þeim sem fellur undir virðisaukaskattsskyldu skv. 3. gr., þ.m.t. vegna samkeppnissjónarmiða sbr. framanritað, að tilkynna um starfsemi sína til skráningar eigi síðar en átta dögum áður en hún hefst. Tilkynningu skal beina til skattstjóra í því umdæmi þar sem hinn tilkynningarskyldi á lögheimili, í tilviki Tourette samtakanna til skattstjórans í Reykjavík. Tilkynning skal vera á formi sem ríkisskattstjóri ákveður, sem er eyðublaðið RSK 10.22 „Tilkynning um virðisaukaskattsskylda starfsemi“. Eyðublaðið liggur frammi hjá öllum skattstjórum og hjá ríkisskattstjóra, en er auk þess að finna á upplýsingavef ríkisskattstjóra (www.rsk.is). Skattstjóra ber að taka ákvörðun um skráningu á grunnskrá virðisaukaskatts. Ef ákvörðun hans er sú að ekki sé um skráningarskylda starfsemi að ræða ber hinum tilkynningarskylda hvorki að innheimta virðisaukaskatt (útskatt) í þeirri starfsemi sem synjað er um skráningu, né á hann frádráttarrétt (innskattsrétt) vegna aðfanga til starfseminnar. Meðal þess sem skattstjóri þarf að taka afstöðu til við ákvörðun sína varðandi skráningu er hvort ákvæði 5. mgr. 5. gr. vsk-laga eigi við. Samkvæmt því ákvæði ber ekki að skrá aðila ef samanlagðar tekjur hans af sölu virðisaukaskattsskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, þ.m.t. vegna kaupa varanlegra rekstrarfjármuna. Þó á aðili rétt á skráningu ef hann sýnir fram á að kaup á fjárfestingarvörum standi í beinu sambandi við sölu á virðisaukaskattsskyldum vörum eða þjónustu á síðari rekstrartímabilum.
Ekki verður hér tekin afstaða til þess hvort nefnt ákvæði 5. mgr. 5. gr. vsk-laga girðir fyrir skráningu Tourette samtakanna á grunnskrá virðisaukaskatts, enda ákvörðunarvald þar um í höndum skattstjórans í Reykjavík eins og áður segir. Athygli er hins vegar vakin á því, að það sem fram kemur í bréfum samtakanna frá 17. mars s.l. varðandi fjármögnun umræddrar útgáfu, gefur samtökunum tilefni til að gera skattstjóra skilmerkilega og sundurliðaða grein fyrir ætluðum tekjum og útgjöldum af bókaútgáfu sinni, með umrætt ákvæði í huga.
Virðingarfyllst
f. h. ríkisskattstjóra
Sigurjón Högnason
Guðlaug M Valdemarsdóttir