Dagsetning                       Tilvísun
10.02.2006                              03/06

 

Útgáfa sölureikninga í erlendri mynt, tímamark og tilgreining virðisaukaskatts.

Með bréfi dagsettu 2. febrúar 2006 beinið þér til ríkisskattstjóra fyrirspurn varðandi útgáfu sölureikninga í erlendri mynt og tilgreiningu virðisaukaskatts í því sambandi. Upp eru bornar svohljóðandi spurningar:
Við hvaða dagsetningu skal miða við útgáfu reiknings
afhendingardagsetningu
samningsdagsetningu ef önnur en að ofan
lokadagsetningu mánaðar
Við hvaða gengi skal miða, Seðlabankans eða bankastofnana
kaupgengi dagsetningar
sölugengi dagsetningar
Fullnægir meðfylgjandi reikningur (WAS-41110) kröfum skattalaga um útlit og upphæðir til útsköttunar sem og innsköttunar
Fullnægja meðfylgjandi reikningar kröfum skattalaga til innsköttunar, ef svo er ekki til hvaða ráða er hægt að beita til lagfæringar (Eimskip TRD 1036646, TRD 1036674, FLU 5082917)

Til svars fyrirspurninni tekur ríkisskattstjóri fram eftirfarandi:

Í 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt er kveðið á um að gefa skuli út sölureikning við hverja sölu eða afhendingu. Í 3.-5. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, er nánar kveðið á um skyldur varðandi útgáfu sölureikninga.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er sett fram sú meginregla að reikningur skuli gefinn út samtímis því að afhending hins selda á sér stað, hvort heldur selt er gegn staðgreiðslu eða greiðslufresti.

Frá meginreglunni um útgáfu sölureiknings samtímis afhendingu er að finna frávik í 3. mgr. 3. gr. Frávikið felst í því að við vissar aðstæður er heimilt að gefa út í lok mánaðar sölureikning vegna viðskipta í þeim mánuði. Frávikið tekur annars vegar til þjónustusala, annarra en þeirra sem nær einvörðungu selja þjónustu sína til endanlegra neytenda og hafa sem slíkir heimild til að skrá sölu sína í sjóðvél í stað þess að gefa út sölureikninga. Þjónustusölum sem frávikið nær til er heimilt að gefa út sölureikning í lok mánaðar, vegna þeirrar þjónustu sem þeir hafa innt af hendi fyrir hvern og einn viðskiptavin, frá upphafi til loka þess mánaðar. Hins vegar tekur frávikið til vörusölu, í því tilviki að hinar seldu vörur eru ætlaðar til nota í atvinnustarfsemi kaupanda. Er þá vörusala heimilt að gefa út reikning í lok mánaðar vegna þeirra vara sem hann afhenti í þeim mánuði. Heimildin er bundin því skilyrði að seljandi gefi við afhendingu vöru út afgreiðsluseðil með upplýsingum um tegund og magn hins selda. Óheimilt er að tilgreina virðisaukaskatt á afgreiðsluseðli.

Í 13. gr. vsk-laga er fjallað um uppgjör virðisaukaskattskyldrar veltu. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að ef sölureikningur er gefinn út fyrir raunverulega afhendingu, þá telst afhending hafa átt sér stað á útgáfudegi reikningsins, að því er uppgjörið varðar. Þannig gerir löggjafinn ráð fyrir að í raun kunni sölureikningur að vera gefinn út fyrir afhendingu, en fellir slík tilvik að meginreglunni um útgáfu reiknings samtímis afhendingu með nefndum hætti.

Íslenskur virðisaukaskattur ákvarðast í íslenskum krónum og það eins þótt hin skattskyldu viðskipti miðist við annan gjaldmiðil. Upplýsingagjöf til skattyfirvalda varðandi virðisaukaskatt skal vera í íslenskum krónum. Meginregla laga um bókhald nr. 145/1994 og ársreikninga nr. 3/2006 er sú að í bókhaldi og ársreikningum skulu fjárhæðir tilgreindar í íslenskum krónum. Frá þeirri meginreglu er að finna það frávik að félög tiltekinnar gerðar geta fengið heimild til að færa bókhald og semja ársreikninga í erlendum gjaldmiðli. Þrátt fyrir að félag fái slíka heimild skulu virðisaukaskattsskýrslur þess byggjast á upprunalegum fjárhæðum í íslenskum krónum, eins og sérstaklega var áréttað með 1. gr. laga nr. 34/2002, er breytti 24. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.

Tilgreining virðisaukaskatts á sölureikningum skal vera í íslenskum krónum. Miðist viðskipti við annan gjaldmiðil og sé virðisaukaskattur tilgreindur í þeim gjaldmiðli, hefur þó í skattframkvæmd þótt mega láta við það sitja að tilgreint sé skráð verðgildi hins erlenda gjaldmiðils gagnvart íslensku krónunni, þ.e. kaupgengi á útgáfudegi reiknings. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, skal Seðlabankinn skrá gengi krónunnar gagnvart helstu gjaldmiðlum hvern virkan dag sem skipulegir gjaldeyrismarkaðir eru almennt starfandi. Það gengi skal notað til viðmiðunar í opinberum samningum, dómsmálum og öðrum samningum milli aðila þegar önnur gengisviðmiðun er ekki sérstaklega tiltekin. Í ljósi þessa ákvæðis lítur ríkisskattstjóri svo á að ákvörðun og tilgreining virðisaukaskatts skuli ráðast af gengisskráningu Seðlabanka Íslands, í þeim tilvikum að viðskipti eru gerð í öðrum gjaldmiðli.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, verður innskattskrafa á ríkissjóð að byggja á skjölum og bókhaldi sem fullnægjandi er samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Í 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993 er kveðið á um að ekki teljist fullnægjandi til sönnunar innskatti önnur skjöl en frumrit sölureikninga, frumrit móttekinna kreditreikninga, frumrit gíróseðla, afreikningar og rafrænir sölureikningar. Skjöl þessi þurfa að uppfylla þau skilyrði varðandi form og efni sem sett eru í II. kafla reglugerðarinnar. Skilyrði er varða sölureikninga, þ.m.t. rafræna sölureikninga, eru sett fram í 4. og 5. gr. reglugerðarinnar. Þá er í 4. mgr. 15. gr. sérstaklega tekið á því tilviki þegar seljandi notar rafrænt bókhaldskerfi og gefur þar af leiðandi út rafrænan sölureikning, en kaupandi hefur ekki slíkt kerfi og er því ekki í stakk búinn til að taka við sölureikningi í formi skeytis sendu með rafboðum milli gagnavinnslukerfa. Við þær aðstæður er prentað eintak hins rafræna sölureiknings tækt innskattskjal kaupanda. Af sjálfu leiðir að hið prentaða eintak þarf að uppfylla þau skilyrði forms og efnis sem gerð eru til rafræna reikningsins, en að auki er gerð sú krafa að prentaða eintakið beri með sér að reikningurinn eigi uppruna sinn í rafrænu bókhaldskerfi skv. reglugerð nr. 598/1999 um rafrænt bókhald.

Framlagður reikningur fyrirspyrjanda nr. WAS41110 ber áritunina „bókað skv. reglugerð nr. 598/1999“. Af henni má ráða að um sé að ræða prentað eintak rafræns sölureiknings. Áritunin er þó ekki svo afdráttarlaus um uppruna reikningsins sem æskilegt væri. Í leiðbeiningum hefur ríkisskattstjóri lagt til að áritun af umræddum toga hljóði: „Þessi reikningur á uppruna sinn í rafrænu bókhaldskerfi skv. reglugerð nr. 598/1999“ Eitt skilyrða 4. gr. reglugerðar nr. 50/1988 er að við útgáfu skuli færa á sölureikning upplýsingar um útgáfudag. Á framlögðum reikningi fyrirspyrjanda kemur hugtakið útgáfudagur ekki fyrir. Hins vegar er bókunardagsetning tilgreind. Sökum þess eiginleika rafræns bókhalds, þ.e. bókhalds sem uppfyllir skilyrði ákvæða reglugerðar nr. 589/1999, að saman fara í tíma útgáfa og bókun rafræns sölureiknings má ljóst vera að bókunardagsetning felur í sér upplýsingar um útgáfudag reiknings, þótt æskilegt væri að útgáfudags væri ótvírætt getið. Þrátt fyrir ábendingar þessar lítur ríkisskattstjóri á að umræddur reikningur sé tækur grundvöllur innskattsfærslu.

Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993 er sett það skilyrði varðandi form reikninga, að reikningseyðublöðin skuli vera fyrirfram tölusett í samfelldri töluröð. Það eitt frávik er frá því skilyrði, að pappírseintak sölureiknings úr rafrænu bókhaldskerfi, skv. reglugerð nr. 598/1999, þarf ekki að prenta á fyrirframtölusett eyðublað. Eins og áður segir þarf að árita pappírseintök rafrænna reikninga um uppruna þeirra úr rafrænu bókhaldskerfi. Fyrirspyrjandi leggur með erindi sínu fram ljósrit (að því er virðist) af reikningum Eimskipa ehf. á hendur honum, nr. TRD 1036646, TRD 1036674 og FLU 5082917. Af ljósritunum verður hvorki séð að reikningarnir séu ritaðir á fyrirfram tölusett eyðublöð, né að þeir beri áritun þess efnis að þeir eigi uppruna sinn í rafrænu bókhaldskerfi skv. reglugerð nr. 598/1999. Miðað við þá forsendu teljast reikningarnir ekki fullnægjandi til sönnunar á innskatti, sbr. áður nefnt ákvæði 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 50/1993.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988 og 3. og 4. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993 skal á sölureikningi koma fram tegund sölu, magn, einingarverð og heildarverð. Af tilgreiningu þessara þátta á framlögðum reikningum frá Eimskipum ehf. verður helst ráðið að viðskipti þau sem reikningarnir varða hafi verið gerð í íslenskum krónum. Verð einstakra þátta er tilgreint í íslenskum krónum, en reiknað yfir í evrur og gengi tilgreint í því sambandi. Raunar gætir misræmis í tilgreindu verði milli gjaldmiðla miðað við tilgreint gengi. Misræmið er ekki stórfellt og kemur ekki fram í tilgreindum virðisaukaskatti. Það sem fyrst og fremst vekur athygli ríkisskattstjóra er að hvorki heildarverð né virðisaukaskattur eru tilgreind í íslenskum krónum. Þrátt fyrir þann óskýrleika sem í þessu felst, þykja þessi atriði ekki valda því ein og sér að á reikningunum verði ekki byggðar innskattsfærslur.

 

Ríkisskattstjóri