Dagsetning                       Tilvísun
7. maí 1990                              69/90

 

Virðisaukaskattur af auglýsingastarfsemi.

Embætti ríkisskattstjóra hafa að undanförnu borist nokkrar fyrirspurnir, bæði frá SÍA og einstökum auglýsingastofum, um virðisaukaskatt af auglýsingastarfsemi. Rétt þykir að svara fyrirspurnum þessum í einu lagi.

  1. Spurt er hvort störf leikara, þula, tónlistarmanna, módela og myndskreytingarmanna, sem auglýsingastofur skipta við vegna auglýsingagerðar, falli undir undanþáguákvæði 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt (vskl.).

Svar: Að mati ríkisskattstjóra eru störf flytjenda sem fram koma í kvikmynd, þ.á.m. auglýsingakvikmynd, undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt tilvitnuðu ákvæði, enda teljist þeir ekki sjálfir hafa með höndum auglýsingaþjónustu. Tekur þetta til leikara, dansara, tónlistarmanna og þula. Jafnframt verður að telja að fyrirsætustörf séu undanþegin á sama grundvelli.

Á ofanrituðu verður að gera þann fyrirvara að það telst sala á auglýsingaþjónustu – og þannig skattskyld þjónusta samkvæmt lögunum – ef leikarar, fyrirsætur og aðrir vinna beint fyrir auglýsanda, þ.e. gera honum reikning fyrir þjónustu sinni (skrifa reikning á nafn auglýsanda) og innheimta án milligöngu auglýsingastofu eða ef reikningur er innheimtur sem útlagður kostnaður auglýsingastofu. Í síðarnefnda tilvikinu er reikningur einnig skráður á nafn auglýsanda, sbr. 19. gr. reglug. nr. 501/1989.

Að öðru leyti en að ofan segir er hvers konar auglýsingaþjónusta, sem veitt er í atvinnuskyni, skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, jafnt skapandi störf sem ráðgjöf. Þannig er sala myndlistarmanna á myndum og teikningum til nota í auglýsingu skattskyld.

Í þessu sambandi er rétt að taka fram að þeir einir eru skattskyldir samkvæmt lögum um virðisaukaskatt sem hafa með höndum sjálfstæða starfsemi eða atvinnurekstur. Launþegar eru ekki skattskyldir samkvæmt lögunum. Þess vegna þarf að kanna hverju sinni hvort greiðsla fyrir leik, þularstörf og önnur slík störf sé launagreiðsla eða greiðsla til verktaka. Að áliti ríkisskattstjóra eru greiðslur til manna, sem fá aðstöðu til verks hjá auglýsingastofunni ásamt aðstoð frá launuðum starfsmönnum hennar og þurfa sjáanlega ekki að hafa neinn kostnað við verkið, launagreiðslur en ekki greiðslur til verktaka. Öðru máli gegnir um þá aðila sem taka að sér verkefni og leggja fram tæki við gerð auglýsingar, húsnæði eða annast aðra aðstöðusköpun og bera fjárhagslega áhættu vegna starfsemi sinnar. Greiðslur til slíkra aðila eru í eðli sínu verktakagreiðslur.

Þeir sem teljast hafa sjálfstæða starfsemi með höndum samkvæmt framansögðu (verktakar) eiga að innheimta virðisaukaskatt af endurgjaldi fyrir þjónustu sína, enda nemi skattskyld sala þeirra meiru en 155.800 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1990).

  1. Spurt er hvort einhverju máli skipti hver er útgefandi fjölmiðils þar sem auglýsing birtist.

Svar: Almenna reglan er sú að ætíð ber að innheimta virðisaukaskatt af sölu auglýsinga. Þó kemur ekki til innheimtu virðisaukaskatts ef útgefandi fjölmiðils (einkum blaðs eða tímarits) er ekki skattskyldur aðili.

Í fyrsta lagi er aðili undanþeginn skattskyldu ef samtals sala hans á skattskyldri vöru og þjónustu, þ.m.t. sala á blaðinu eða tímaritinu og auglýsingatekjur, er lægri en 155.800 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1990).

Í öðru lagi er sá undanþeginn skattskyldu sem ekki gefur út blað eða tímarit í atvinnuskyni.

Við mat á því hvenær útgáfa telst vera í atvinnuskyni er aðallega miðað við hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri.

Útgáfufyrirtæki telst ekki rekið í atvinnuskyni ef samtals auglýsingatekjur og tekjur af sölu eru alltaf eða nær alltaf lægri en prentkostnaður og annar kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til útgáfunnar. Gefi aðili út fleiri en eitt tímarit o.s.frv. er miðað við heildarafkomu fyrirtækisins.

Þótt útgáfan sé rekin tímabundið með tapi, t.d. fyrst eftir stofnun útgáfufyrirtækis eða vegna sérstakra aðstæðna, hefur það ekki í för með sér undanþágu frá skráningarskyldu.

Sérstaklega um útgáfustarfsemi félagasamtaka

Útgáfustarfsemi félagasamtaka, svo sem íþróttafélaga, nemendafélaga og stjórnmálaflokka, má skipta í tvennt:

a) Sé útgáfa blaðs eða tímarits varanleg og regluleg yfir lengra tímabil fellur hún   undir þær reglur sem að ofan greinir. Það fer þá eftir því hvort hagnaður er af útgáfunni hvort félaginu ber að skrá sig vegna útgáfunar. Jafnframt verður að taka tillit til aðstæðna í einstökum tilvikum, t.d. hvort um sé að ræða sambærilega útgáfustarfsemi og fer fram hjá atvinnufyrirtækjum.

b) Tilfallandi útgáfustarfsemi félagasamtaka, svo sem afmælisrit, blaðaútgáfa stjórnmálaflokka fyrir kosningar og skólablöð sem ekki falla undir a-lið getur ekki talist í atvinnuskyni í skilningi laga um virðisaukaskatt. Slík útgáfa er því undanþegin skráningarskyldu – óháð afkomu.

  1. Spurt er hvernig fara skuli með þjónustu fyrir erlenda aðila.

Svar: Fjármálaráðherra hefur 2. maí sl. gefið út reglugerð um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila o.fl. Þar kemur fram að sala á m.a. auglýsingaþjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi er undanþegin skattskyldri veltu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, enda sé a.m.k. öðru eftirtalinna skilyrða fullnægt:

a) Þjónustan er nýtt að öllu leyti erlendis.

b) Kaupandi gæti – ef starfsemi hans væri skráningarskyld hér á landi samkvæmt   lögum um virðisaukaskatt – talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts; sbr.15.gr. 16. gr.1aganna.

Til sönnunar því að b-liður eigi við um kaupanda skal seljandi krefja hann um vottorð frá bærum yfirvöldum í heimalandi hans þar sem fram komi hvers konar atvinnurekstur hann hefur með höndum.Vottorð þetta gildir í eitt ár frá útgáfudegi og skal seljandi varðveita það á sama hátt og önnur bókhaldsgögn.

Með auglýsingaþjónustu er í reglugerðinni bæði átt við gerð auglýsingar og birtingu. Reglugerðin tekur til þjónustu sem er innt af hendi hér á landi, en þjónusta sem veitt er erlendis er undanþegin skattskyldri veltu skv. 1. tölul. 1. mgr.12. gr. vskl. Til skýringar þessum reglum skulu nefnd nokkur dæmi:

  1. Á grundvelli a-liðar hér að ofan gæti auglýsingastofa talið þóknun fyrir gerð auglýsingar fyrir erlendan aðila undanþegna skattskyldri veltu ef um er að ræða efni sem nota á að öllu leyti erlendis. Skiptir þá ekki máli hvort b-liður eigi við um kaupanda þjónustunnar.
  1. Sú þjónusta sem felst í birtingu auglýsingar á kostnað erlends aðila í íslenskum fjölmiðli er ávallt talin nýtt hér á landi. Þar af leiðir að aldrei er hægt að telja auglýsingabirtingu undanþegna skattskyldri veltu á grundvelli a-liðar. Þar ræður því úrslitum hvort b-liður eigi við um kaupanda (hinn erlenda aðila).
  1. Sé auglýsing sem gerð er hér á landi að hluta nýtt hér á landi (birting bæði hér á landi og erlendis) getur a-liður ekki átt við og verður þá að fara eftir reglu b-liðar.
  1. Spurt er hvort leggja eigi á virðisaukaskatt við sölu á auglýsingaþjónustu til aðila sem selja vöru, vinnu eða þjónustu sem um ræðir í 12. gr. vskl. (sala undanþegin skattskyldri veltu).

Svar: Auglýsingastofu ber ávallt að innheimta virðisaukaskatt af sölu sinni til innlendra aðila; einnig þegar starfsemi kaupanda fellur undir undanþáguákvæði laganna (2. gr. eða 12. gr.). Þeir sem hafa með höndum starfsemi sem um ræðir í 12. gr. eru tæknilega skattskyldir samkvæmt lögunum. Þeir leggja ekki virðisaukaskatt á sölu sína en njóta sama réttar til frádráttar (eða endurgreiðslu) innskatts og aðrir skattskyldir aðilar.

  1. Spurt er hvernig með skuli fara þegar auglýsingastofa sér um og greiðir prentun, birtingar o.fl. fyrir umbjóðendur sína og innheimtir þennan kostnað með álagi eða semur um afslátt sér til handa af honum.

Svar: Umræddur kostnaður telst til skattverðs hjá auglýsingastofu, þ.e. myndar stofn til útskatts hennar, en í 19. gr. reglugerðar nr. 501/1989 felst að þjónustusali getur ekki haldið kostnaði fyrir utan skattverð ef hann er innheimtur með álagi eða þóknun. Virðisaukaskattur af keyptri þjónustu telst til innskatts stofunnar.

Engu breytir í þessu sambandi hvaða form.er haft á þóknun auglýsingastofu fyrir birtingar og aðra umsýslu þeirra hvort fjölmiðlar greiða stofu þjónustulaun, þjónusta endurseld með álagi eða afsláttur fenginn sem ekki rennur að fullu til umbjóðanda. Í öllum þessum tilvikum skal telja heildarverð birtingarkostnaðar, prentkostnaðar o.s.frv. til skattverðs auglýsingastofu.

  1. Í framhaldi af sp. 5 er spurt hvort telja beri þann kostnað sem þar um ræðir sem rekstrargjöld í rekstrarreikningi – og þá stofn til aðstöðugjalds.

Svar: Skattadeild ríkisskattstjóra hefur þessa fyrirspurn til umfjöllunar og má vænta svars embættisins bráðlega.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ólafur Ólafsson.