Dagsetning                       Tilvísun
08.06.2005                              04/05

 

Virðisaukaskattur – fjárframlög fyrirtækja innan Ólympíufjölskyldunnar.

Ríkisskattstjóra barst þann 1. mars s.l. erindi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) dagsett 25. febrúar 2005. Í erindinu er greint frá samstarfi ÍSÍ og fjögurra nafngreindra fyrirtækja er mynda svonefnda Ólympíufjölskyldu, til styrktar sérsamböndum innan ÍSÍ vegna verkefna á árunum 2005 – 2008, svo sem þátttöku í heimsmeistarakeppnum, Evrópukeppnum, smáþjóðaleikum og Ólympíuleikum. Þrjú fyrirtækjanna reiði fram fé, eitt kr. 2.000.000, annað kr. 3.000.000 og hið þriðja kr. 5.200.000. Fjórða fyrirtækið láti í té flugferðir, 45 ferðir án endurgjalds og 150 á sérstökum vildarkjörum. ÍSÍ birti merki (logo) fyrirtækjanna fjögurra á upplýsingavef sínum (heimasíðu), á bréfsefni sínu og á baksíðu ársskýrslu sinnar. Þá er frá því greint að ÍSÍ meti verðgildi þeirra auglýsinga, sem í birtingunum felast, kr. 500.000 á ári í tilviki hvers félags og hyggist ÍSÍ miða skattverð í virðisaukaskattsskilum við það verðgildi. Í erindinu leitar ÍSÍ álits ríkisskattstjóra á þeirri aðferðafræði.

Til svars erindinu tekur ríkisskattstjóri eftirfarandi fram:

Móttaka fjárframlaga sem slík hefur ekki virðisaukaskattsskyldu í för með sér, heldur ræðst virðisaukaskattsskylda af því endurgjaldi sem innt er af hendi gegn framlaginu, hvort heldur það er í formi vöru eða þjónustu. Komi ekkert endurgjald fyrir fjárframlag er ekki um virðisaukaskattsskyldu að ræða. Meginregla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er að sala allra vara og þjónustu er virðisaukaskattsskyld. Til virðisaukaskattsskyldrar þjónustu teljast auglýsingar og kynningar, svo sem í formi beinnar eða óbeinnar kynningar á fyrirtæki, söluvöru þess, firma- eða vörumerki. Birting á nafni greiðanda fjárframlags eða merki hans (logo) felur þannig almennt í sér auglýsingu eða kynningu sem er virðisaukaskattsskyld. Feli birtingin hins vegar ekki í sér auglýsingu eða kynningu, heldur eingöngu gerð í þakklætis- eða virðingaskyni við þann er reiðir fram fé, er ekki um endurgjald fyrir framlagt fé að ræða og þar með ekki virðisaukaskattsskyldu. Svo kann að vera háttað um birtingu á nafni eða merki sveitarfélags, ríkisstofnunar, einstaklings eða félags, sem hvorki stundar atvinnustarfsemi né hefur hag af því að koma sér á framfæri. Þá hefur í skattframkvæmd verið litið svo á, að við vissar aðstæður kunni fjárframlag að hluta til að vera gegn endurgjaldi í formi auglýsingar eða kynningar og að hluta til án endurgjalds. Er þá horft til fjárhæðarinnar sem fram er reidd, gildis auglýsingarinnar eða kynningarinnar fyrir þann er reiðir fram féð og almenns gangverðs auglýsingar eða kynningar af umræddum toga í viðskiptum milli ótengdra aðila.

Fyrirtækin fjögur í Ólympíufjölskyldunni stunda öll atvinnu og hafa sem slík hagsmuni af því að koma sér á framfæri, enda auglýsa þau sig öll ríkulega og með fjölbreyttum hætti. Vart leikur vafi á að vænlegt og eftirsóknarvert er að koma auglýsingum á framfæri á vettvangi íþrótta, enda njóta íþróttir athygli almennings og fjölmiðla í ríkum mæli. Ríkisskattstjóri telur yfir vafa hafið að áðurnefnd birting á merkjum (logoum) fyrirtækjanna hefur auglýsingagildi fyrir þau. Ríkisskattstjóri telur jafnframt að önnur sjónarmið en hagsmunir af auglýsingum kunni að hafa ráðið framlögum félaganna, svo sem sérstakur velvilji í garð íþróttastarfs, og að framlögin endurspegli því ekki verðmæti auglýsinganna. Í því sambandi er til þess að horfa að félögin reiða ekki öll fram sömu fjárhæð, en fá þó öll að endurgjaldi fyllilega sambærilega auglýsingu. Ríkisskattstjóri telur því að við uppgjör virðisaukaskatts af umræddum viðskiptum sé ÍSÍ heimilt að miða skattverð umræddra auglýsinga við almennt gangverð slíkra auglýsinga.

Svar þetta við erindi ÍSÍ felur hvorki í sér skattákvörðun né bindandi álit í skattamálum, sbr. lög nr. 91/1998. Með svarinu hvorki staðfestir né hafnar ríkisskattstjóri því mati ÍSÍ, að verðmæti auglýsinga er það lætur hverju umræddra fyrirtækja í té nemi kr. 500.000 á ári.

 

Virðingarfyllst

f. h. ríkisskattstjóra

Bjarni Amby Lárusson

Sigurjón Högnason