Dagsetning Tilvísun
31.03.2006 04/06
Virðisaukaskattur – útleiga fasteigna, aðstöðuleiga
Ríkisskattstjóri vísar til bréfs yðar sem móttekið var hjá ríkisskattstjóra 22. mars 2006. Af bréfinu verður ráðið að óskað sé svara við því í hvaða tilvikum útleiga teljist virðisaukaskattsskyld og þá með tilliti til þeirrar starfsemi sem rekin er af söfnuðinum. Ekki liggur skýrt fyrir um hvers konar útleigu er að ræða en í bréfinu er talað um útleigu kirkjunnar og útleigu íbúðar í safnaðarheimili.
Af þessu tilefni skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær skattskyldusvið virðisaukaskattslaga til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega undanþegin í 3. mgr. greinarinnar. Sú málsgrein hefur að geyma tæmandi talningu þeirrar vinnu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti, eins og skýrt kemur fram í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 50/1988. Undanþágurnar fela í sér undantekningar frá meginreglu um skattskyldu og ber sem slíkar að skýra þröngt og aldrei rýmri skýringu en orðalag ákvæðanna beinlínis gefa tilefni til.
Samkvæmt 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 er fasteignaleiga og útleiga bifreiðastæða undanþegin virðisaukaskatti. Útleiga hótel- og gistiherbergja og útleiga tjaldstæða er þó skattskyld, svo og önnur gistiþjónusta þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar. Sama gildir um sölu á aðstöðu fyrir veitingar og samkomur þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar.
Ríkisskattstjóri hefur skýrt hugtakið fasteignaleiga í samræmi við almenna skilgreiningu á því hugtaki þannig að hún sé afmarkað land ásamt eðlilegum hlutum landsins, lífrænum og ólífrænum, og þeim mannvirkjum sem varanlega eru við landið skeytt. Hugtakið fasteignaleiga í ákvæði 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 hefur verið túlkað svo það taki fyrst og fremst til þess þegar leigusali lætur leigutaka í té svo víðtæk afnot eignarinnar að þau jafnist nokkurn veginn á við raunveruleg umráð eiganda. Um gerninga sem veita afnot af húsnæði er höfð hliðsjón af því hvort lög um húsaleigusamninga taki til réttarsambandsins. Ef svo ber undir þá telst útleiga á íbúð undanþegin virðisaukaskatti á grundvelli nefnds ákvæði 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988. Hvað útleigu á kirkjunni sjálfri varðar þá verður ekki með skýrum hætti af fyrirspurninni ráðið hvernig útleigunni er háttað. Að því gefnu að hún sé leigð út vegna einstakra viðburða þá er að öllu jöfnu um virðisaukaskattsskylda aðstöðuleigu að ræða, sbr. framangreint.
Rétt þykir að taka fram með vísan til orðalags í fyrirspurn yðar, að teljist leiga undanþegin virðisaukaskattsskyldu samkvæmt 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, þá er um að ræða tekjur af undanþeginni starfsemi en slíkar tekjur ber ekki að tilgreina á virðisaukaskattsskýrslum.
Ríkisskattstjóri