Dagsetning Tilvísun
28.05.2004 05/04
Virðisaukaskattur – vöruflutningar – innskattsréttur – rekstrarkostnaður
Ríkisskattstjóra hefur borist bréf yðar, dags. 24. febrúar 2004. Í bréfinu kemur fram að þér búið í Reykjavík en starfið á skrifstofu sýslumannsins í Keflavík. Samhliða starfi yðar þar hafið þér tekið að yður akstur með rekstrargögn fyrir Sparisjóðinn í Keflavík. Á hverjum morgni sækið þér gögn hjá Reiknistofu bankanna í Reykjavík og akið með þau til Sparisjóðsins í Keflavík. Að vinnudegi loknum takið þér gögn frá sparisjóðnum og frá útibúi hans í Njarðvík og akið með þau til Reykjavíkur. Óskið þér eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort tekjur fyrir þennan akstur séu virðisaukaskattsskyldar og hvort aksturinn teljist vera rekstur.
Til svars við fyrirspurn yðar vill ríkisskattstjóri taka eftirfarandi fram:
Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga). Sviðið er markað mjög rúmt. Tekur það til allra vara og verðmæta og til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tiltekin undanþegin í 3. mgr. greinarinnar. Sú málsgrein hefur að geyma tæmandi talningu þeirrar vinnu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti, eins og skýrt kemur fram í athugasemdum við frumvarp það er varð að vsk-lögum. Undanþágurnar fela í sér undantekningar frá meginreglu um skattskyldu og ber sem slíkar að skýra þröngt og aldrei rýmri skýringu en orðalag ákvæðanna beinlínis gefur tilefni til. Vöruflutningar eru ekki meðal þeirrar þjónustu sem talin er undanþegin í 3. mgr. 2. gr. vsk-laga.
Í 3. gr. vsk-laga er kveðið á um virðisaukaskattsskyldu, þ.e. á hverjum hvíli skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð. Í 1. tölul. 1. mgr. er sett fram sú meginregla að skyldan hvíli á þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selja eða afhenda vörur eða verðmæti ellegar inna af hendi skattskylda vinnu og þjónustu. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. vsk-laga ber hverjum þeim sem skattskyldur er skv. 3. gr. að tilkynna um starfsemi sína til skráningar eigi síðar en átta dögum áður en hún hefst. Tilkynningu skal beina til skattstjóra í því umdæmi þar sem hinn tilkynningarskyldi á lögheimili. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra eruð þér skráðir á virðisaukaskattsskrá frá 1. janúar 2004 vegna starfseminnar „akstur sendibíla“.
Aðili sem skráður er á virðisaukaskattsskrá getur talið til innskatts virðisaukaskatt af aðkeyptum rekstrarfjármunum, vörum, vinnu, þjónustu og öðrum aðföngum sem eingöngu varða sölu hans á vörum og skattskyldri þjónustu, sbr. 16. gr. vsk-laga.
Ef vara og þjónusta er að hluta til notuð við skattskylda starfsemi og að hluta til við undanþegna starfsemi, sbr. 3. mgr. 2. gr. vsk-laga, eða til eigin nota þarf að skipta innkaupunum í innkaup vegna skattskyldrar starfsemi og innkaup vegna undanþeginnar starfsemi og eigin nota. Innskattur er þá heimill að hluta til, þ.e.a.s. frádráttur er þá hlutfallslegur og miðaður við umfang skattskyldrar starfsemi eða skattskyldra nota.
Í 3. mgr. 16. gr. vsk-laga, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, segir að óheimilt sé að færa til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er varða eftirfarandi:
1. Kaffistofu eða mötuneyti skattaðila og hvers konar fæðiskaup.
2. Öflun eða rekstur íbúðarhúsnæðis fyrir eiganda eða starfsmenn.
3. Hlunnindi til eiganda eða starfsmanna.
4. Öflun og rekstur orlofsheimila, sumarbústaða, barnaheimila og þess háttar fyrir eiganda eða starfsmenn.
5. Risnu og gjafir.
6. Öflun, rekstur og leigu fólksbifreiða og hópbifreiða. Sama á við um sendi- og vörubifreiðar með leyfða heildarþyngd 5.000 kg eða minna sem ekki uppfylla skilyrði um burðargetu og lengd farmrýmis er fjármálaráðherra setur í reglugerð, þ.e. reglugerð nr. 192/1993.
Til grundvallar innskattsfrádrætti verða ætíð að liggja áreiðanleg og fullnægjandi fylgiskjöl í bókhaldi og aðeins sá sem tilgreindur er kaupandi á reikningi getur fært innskatt á grundvelli hans. Meðfylgjandi er leiðbeiningarbæklingurinn „Virðisaukaskattur, leiðbeiningar og dæmi“. Á bls. 26-31 er að finna umfjöllun um heimildir virðisaukaskattsskyldra aðila til færslu innskatts.
Samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, tekjuskatt og eignarskatt, má draga rekstrarkostnað frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Til rekstrarkostnaðar teljast þau gjöld sem eiga á árinu að ganga til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við. Það ber undir skattaðila að sýna fram á að skilyrðum frádráttar samkvæmt ákvæðinu sé fullnægt. Almennur kostnaður vegna persónulegra þarfa er ekki frádráttarbær.
Virðingarfyllst
f. h. ríkisskattstjóra
Guðrún Þorleifsdóttir
Guðlaug M Valdemarsdóttir