Dagsetning Tilvísun
14.09.2005 05/05
Heimili fyrir fatlaða – rekstur þvottahúss – virðisaukaskattur
Þann 28. apríl 2005 móttók ríkisskattstjóri bréf heimilisins sem dagsett er 26. apríl sl. Þar kemur eftirfarandi fram: „X er heimili fyrir fatlaða, sem þarfnast aðstoðar við athafnir daglegs lífs allan sólarhringinn. Heimilið er rekið á föstum fjárlögum. Hér búa 38 einstaklingar og fá hér alla þjónustu. Einn af starfsemisþáttum heimilisins er þvottahús, þar sem fatnaður íbúanna er þveginn. Þvottur á líni og annar þvottur er aðkeyptur“. Í bréfinu er óskað staðfestingar á því að starfsemi þvotthúss heimilisins sé ekki virðisaukaskattsskyld.
Til svars við fyrirspurninni skal eftirfarandi tekið fram:
Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint í 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga). Sviðið er markað mjög rúmt. Tekur það til allra vara og verðmæta og til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tiltekin undanþegin í 3. mgr. greinarinnar. Í 2. tölul. 3. mgr. 2. gr. vsk-laga segir að félagsleg þjónusta, svo sem rekstur leikskóla, barnaheimila, skóladagheimila og upptökuheimila og önnur hliðstæð þjónusta sé undanþegin skattskyldu. Í athugasemdum við frumvarp til vsk-laga eru nefndar sem dæmi um stofnanir sem undir ákvæðið falla; elliheimili, endurhæfingarstöðvar fyrir lamaða og fatlaða og stofnanir fyrir þroskahefta. Í skattframkvæmd hefur verið litið svo á að með félagslegri þjónustu sé átt við aðstoð er stuðlar að velferð manna og veitt er á grundvelli samhjálpar sem fram fer á vegum opinberra stofnana eða viðurkenndra líknarsamtaka er hafa slíka aðstoð að markmiði sínu.
Þó starfsemi teljist undanþegin virðisaukaskatti skv. 2. gr. vsk-laga getur tiltekin eigin þjónusta, sem rekin er í samkeppni við atvinnufyrirtæki, verið virðisaukaskattsskyld, sbr. 2. mgr. 3. gr. vsk-laga og reglugerð nr. 562/1989, um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana. Í 2. gr. tilvitnaðar reglugerðar er rakið hvaða starfsemi er skattskyld skv. reglugerðinni og er þar eftirfarandi tilgreint í 2. tölulið ákvæðisins: „rekstur þvottahúss, prentstofu og mötuneytis“. Starfsemi telst rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki skv. reglugerðinni þegar viðkomandi vara eða þjónusta er almennt í boði hjá atvinnufyrirtækjum og skiptir þá ekki máli hvort eða hve mikið aðili selur af slíkum vörum eða þjónustu til annarra, sbr 3. mgr. 2. gr. sömu reglugerðar.
Í 3. gr. tilvitnaðar reglugerðar er vikið að útreikningi skattverðs vegna ofangreindrar starfsemi. Þar kemur fram að fari starfsemi fram í sérstakri þjónustudeild skuli miða skattverð við almennt gangverð í sams konar viðskiptum. Skal við skil á skatti í ríkissjóð draga innskatt af aðföngum frá útskatti skv. almennum reglum. Séu vörur hins vegar framleiddar eða þjónusta innt af hendi eingöngu til eigin nota án þess að slík starfsemi fari fram í sérstakri þjónustudeild, skal miða skattverð við kostnaðarverð þess hluta heildarkostnaðarins sem ekki hefur verið greiddur virðisaukaskattur af við kaup á aðföngum eða við færslu frá eigin þjónustudeildum. Með kostnaðarverði skal telja bein laun og annan beinan kostnað auk álags vegna launatengdra gjalda og annars sameiginlegs kostnaðar og skal skv. auglýsingu nr. 17/1996, um reglur um skattverð aðila sem hafa með höndum starfsemi skv. m.a. reglugerð nr. 562/1989, margfalda bein laun með hækkunarstuðlinum 1,3 vegna launatengdra gjalda og annars sameiginlegs kostnaðar.
Rekstrarform X er, skv. upplýsingum úr fyrirtækjaskrá, „Félagasamtök“ og starfsemi er tilgreind sem heimili fyrir fatlaða. Miðað við framkomnar upplýsingar verður að álykta að um sé að ræða félagasamtök er falla undir ákvæði 3. mgr. 2. gr. vsk-laga og að þeim beri að reikna og greiða virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota eins og kveðið er á um í reglugerð nr. 562/1989, þ.m.t. af rekstri þvottahúss.
Rétt er að taka fram að ef X telst í reynd opinber aðili þá gilda um starfsemi þvottahússins ákvæði reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila. Rekstur þvottahúss er meðal þess sem fellt hefur verið undir skattskyldusvið þeirrar reglugerðar.
Samkvæmt 5. gr. vsk-laga ber þeim sem skattskyldur er skv. 3. gr. vsk-laga að tilkynna sig til skráningar á grunnskrá virðisaukaskatts í því umdæmi sem hann á lögheimili.
Ríkisskattstjóri