Dagsetning                       Tilvísun
31.03.2006                             05/06

 

Virðisaukaskattur á aðgang að stafrænu efni þegar aðili er búsettur erlendis.
Ríkisskattstjóri vísar til fyrirspurnar yðar sem móttekin var hjá ríkisskattstjóra 23. mars 2006. Í fyrirspurninni er rakið að Morgunblaðið selji aðgang að blaðinu á netinu auk þess sem seldur sé í áskrift aðgangur að blaðagreinum úr svokölluðu Gagnasafni. Kemur fram að sumir áskrifendur gefi upp aðsetur erlendis. Spurt er hvort innheimta áskriftargjalds til erlendis búsettra teljist til skattskyldrar veltu.

Til svars við fyrirspurninni skal tekið fram að skattskyldusvið laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er afmarkað í 2. gr. þeirra laga. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. nær skattskyldusviðið til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, nema byggt verði á einhverju undanþáguákvæða 3. mgr. 2. gr. Að mati ríkisskattstjóra verður sú þjónusta sem lýst er í erindi yðar ekki felld undir nokkurt þeirra ákvæða sem upp eru talin í 3. mgr. 2. gr. laganna og telst því skattskyld.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 50/1988 telst sérhver afhending vöru og þjónustu gegn greiðslu til skattskyldrar veltu nema undanþága verði byggð á einhverju ákvæða 12. gr. sömu laga. Samkvæmt 1. málsl. 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. er sala á þjónustu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi undanþegin skattskyldri veltu, enda sé þjónustan nýtt að öllu leyti erlendis. Það er þó aðeins þjónusta tiltekinnar tegundar sem felld verður hér undir, sbr. 4. málsl. töluliðarins. Tölvuþjónusta, önnur gagnavinnsla og upplýsingamiðlun er talin upp í staflið d.

Ríkisskattstjóri hefur litið svo á að áskrift að blöðum og tímaritum á netinu feli í sér upplýsingamiðlun og telst því sala áskriftar að Morgunblaðinu og að Gagnasafninu til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi undanþegin skattskyldri veltu, enda sé þjónustan nýtt að öllu leyti erlendis, sbr. d. lið 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 1. mgr. 1. gr. og 4. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá.

 

Ríkisskattstjóri