Dagsetning                       Tilvísun
08.06.2004                             06/04

 

Virðisaukaskattur – sala á dreifingarrétti kvikmyndar
Í bréfi félagsins dagsettu 11. maí 2004 er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort félaginu (íslensku einkahlutafélagi) beri að innheimta virðisaukaskatt í tilteknum viðskiptum. Í bréfinu er frá því greint að félagið hafi selt öðru íslensku einkahlutafélagi dreifingarrétt að tiltekinni kvikmynd. Meðfylgjandi bréfinu er ljósrit samnings félaganna tveggja um viðskiptin. Í samningnum kemur fram að dreifingarrétturinn takmarkist við dreifingu kvikmyndarinnar í þýskumælandi löndum í tíu ár frá og með dagsetningu samningsins. Dreifingarrétturinn tekur til sjónvarpsútsendingar kvikmyndarinnar með hefðbundnum sjónvarpsmerkjum (standard television signals), um þráð eða um gervihnött. Fyrir dreifingarréttinn skal kaupandi greiða tiltekna fjárhæð á tveimur tilteknum gjalddögum, 15. ágúst 2002 og 15. janúar 2003. Meðal skyldna seljanda samkvæmt samningnum er afhending kvikmyndarinnar, í tilteknu formi, til kaupanda í síðasta lagi 31. maí 2003.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram.

Svar þetta felur hvorki í sér skattákvörðun samkvæmt 25. eða 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (vsk-laga), né bindandi álit af þeim toga sem kveðið er á um í lögum nr. 91/1998, um bindandi álit í skattamálum. Svarið er hins vegar sett fram á grundvelli þess samræmingar- og leiðbeiningarhlutverks sem ríkisskattstjóra er falið í 1. mgr. 39. gr. vsk-laga. Sem slíkt felur svarið í sér almennt álit ríkisskattstjóra á skyldu til innheimtu virðisaukaskatts í viðskiptum slíkum sem greinir í erindinu.

Samkvæmt 1. gr. vsk-laga skal greiða í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innanlands á öllum stigum. Skattskyldan nær samkvæmt 2. gr. laganna til allra vara og verðmæta og til allrar vinnu og þjónustu, sem ekki er sérstaklega tilgreind undanþegin í 3. mgr. greinarinnar. Þar er að finna tæmandi talningu þeirrar þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti. Dreifingarréttur af þeim toga sem um er spurt fellur ekki undir þá tæmandi talningu. Slíkur dreifingarréttur fellur því tvímælalaust undir skattskyldusvið virðisaukaskatts.

Samkvæmt 12. gr. vsk-laga er seljanda vöru eða þjónustu, sem fellur undir skattskyldusvið virðisaukaskatts, heimilt að falla frá innheimtu virðisaukaskatts við þær aðstæður sem tilteknar eru í lagagreininni.

Í 1. tölul. 1. mgr. 12. gr. kemur fram að vara sem seld er úr landi, svo og vinna og þjónusta sem veitt er erlendis teljist ekki til skattskyldrar veltu. Þar sem sala á dreifingarrétti telst sala á þjónustu í skilningi vsk-laga kemur síðara tilvikið aðeins til skoðunar hér. Um vinnu og þjónustu sem veitt er erlendis segir í greinargerð með því frumvarpi er varð að vsk-lögum að hér sé verið að undanþiggja skattskylda vinnu og þjónustu sem veitt er og seld erlendis. Með ákvæðinu er þannig eingöngu verið að undanþiggja þjónustu sem innt er af hendi utan íslenskrar lögsögu. Sala á dreifingarrétti, með þeim hætti sem lýst er í fyrirspurnarbréfinu, fellur ekki undir umrætt undanþáguákvæði þar sem salan fer fram hér á landi.

Í 10. tölul. 1. mgr. 12. gr. vsk-laga er kveðið á um undanþegin skattskyldri veltu sé sala á tiltekinni þjónustu til þeirra sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi, enda sé þjónustan nýtt að öllu leyti erlendis. Jafnframt er undanþegin skattskyldri veltu sala á tiltekinni þjónustu til þeirra sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi þó að þjónustan sé ekki nýtt að öllu leyti erlendis ef kaupandi gæti, væri starfsemi hans skráningarskyld hér á landi, talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. laganna. Undanþáguákvæðið tekur ekki í nokkru tilviki til viðskipta hér á landi milli tveggja hérlendra fyrirtækja.

Með vísan til framangreinds er það álit ríkisskattstjóra að virðisaukaskattskyld sé slík sala á dreifingarrétti kvikmyndar sem í fyrirspurn greinir.

Um uppgjör skattskyldrar veltu fer eftir 13. gr. vsk-laga. Þar er í 1. mgr. sett fram sú grunnregla að afhending hins selda ráði því á hvaða uppgjörstímabili skila skuli í ríkissjóð þeim virðisaukaskatti sem innheimta ber við söluna. Í 3. mgr. greinarinnar er kveðið á um það frávik frá grunnreglunni að ef greiðsla fer fram að fullu eða að hluta áður en afhending á sér stað teljist til skattskyldrar veltu á því tímabili þegar greiðsla fer fram 80,32% eða 87,72% greiðslufjárhæðarinnar, eftir því hvort um er að ræða sölu sem fellur undir 24,5% eða 14,0% skatthlutfall.

 

Virðingarfyllst

f. h. ríkisskattstjóra

Sigurjón Högnason

Guðlaug M Valdemarsdóttir