Dagsetning                       Tilvísun
15.02.2006                             06/06

 

Virðisaukaskattur af sölu veiðileyfa.

Ríkisskattstjóri vísar til fyrirspurnar yðar sem móttekin var hjá ríkisskattstjóra 15. febrúar 2006. Í bréfinu óskið þér eftir upplýsingum um lög eða reglugerðir sem undanþiggja lax- og silungsveiðileyfi virðisaukaskatti.

Í tilefni af fyrirspurn yðar skal tekið fram að samkvæmt 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, nær skattskylda virðisaukaskatts til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, svo og til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki eru sérstaklega undanþegin, sbr. 3. mgr. 2. gr. Samkvæmt 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. er fasteignaleiga undanþegin virðisaukaskatti.

Samkvæmt skýringu ríkisskattstjóra á framangreindum 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. tekur hugtakið fasteignaleiga fyrst og fremst til þess þegar leigusali lætur leigutaka í té svo víðtæk afnot eignar sinnar að þau jafnist nokkurn veginn á við raunveruleg umráð eiganda. Þrátt fyrir þessa meginreglu er talið í framkvæmd að ákvæðið taki a.m.k. til leigu á sumum fasteignatengdum réttindum, þ.e. réttindum sem heimila rétthafa tiltekin þröng umráð og takmörkuð not fasteignar sem er í eigu eða umráðum annars eða annarra aðila. Þetta hefur verið talið gilda um endurgjald fyrir veiðirétt, hvort sem það er leiga til lengri eða skemmri tíma eða sala einstakra veiðileyfa í ám og vötnum, enda sé um að ræða fast gjald, óháð veiðifeng. Sé sala tengd því hversu mikið veiðist hefur verið talið að viðskiptin feli í sér virðisaukaskattsskylda vörusölu, sbr. bréf ríkisskattstjóra, dags. 19. febrúar 1990 (tilv. 24/90), sem er meðfylgjandi bréfi þessu.

 

Ríkisskattstjóri