Dagsetning Tilvísun
18.06.2004 09/04
Virðisaukaskattur – aðgangur að kennsluefni um golf á vefsíðu
Þann 24. mars 2004 barst ríkisskattstjóra tölvuskeyti frá félaginu þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort innheimta skuli virðisaukaskatt af áskrift að kennsluefni á vefsíðu. Félagið hefur í hyggju að halda úti vefsíðu sem kallast draumagolf.is. Á vefsíðunni verður svæði fyrir meðlimi eingöngu. Þeir sem gerast meðlimir greiða ákveðið áskriftargjald og þá býðst þeim eftirfarandi þjónusta á vefsíðunni:
„Æfingaáætlun: Aðgangur að nákvæmri æfingaáætlun sem er sérsniðin fyrir kylfinga með svipaða forgjöf og gildir í einn mánuð í senn. Í hverri æfingaáætlun eru teknir fyrir þeir þættir golfleiksins sem skipta máli á því tímabili sem um er að ræða. Allar þær æfingar sem æfa á eru settar inn í sérstakt æfingasafn.
Sérfæðingar: Sérfræðingar draumagolfs eru fjórir:
Golfkennari: Jón Karlsson PGA
Sjúkraþjálfari: Gauti Grétarsson
Dómari: Þorsteinn Sv. Stéfansson
Næringarfræðingur: Steinar B Aðalbjörnsson
Meðlimir geta spurt sérfræðingana varðandi þætti sem hafa með golf að gera og fá svör sent heim og einnig verða svör við algengustu „vandamálum“ lögð út á netið. Sérfræðingar draumagolfs munu einnig skrifa pistla sem nýtast kylfingum vel.
Æfingasafn: Æfingasafninu verður skipt upp í flokka eftir því hvernig högg er verið að æfa. Æfingasafnið er einstakt á netinu að því leiti að allar æfingarnar eru útskýrðar á myndbandi og farið er nákvæmlega í grunnatriði fyrir hvert högg.“
Til viðbótar þessu fá nýjir meðlimir einnig möppu sem hefur að geyma upplýsingar um grunntækni fyrir mismunandi tegundir högga. Mánaðarlega fá þeir senda æfingaáætlun eins og þá sem hægt er að finna á vefsíðunni. Jafnframt fá meðlimir send fimm blöð til að setja í möppuna en á þessum blöðum eru æfingar, úr æfingaáætluninni, útskýrðar nákvæmlega í máli og myndum.
Til svars við fyrirspurn yðar skal eftirfarandi tekið fram:
Skattskyldusvið virðisaukaskatts er skilgreint í 2. gr. vsk-laga. Sviðið er markað mjög rúmt. Tekur það til allra vara og verðmæta og til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega tiltekin undanþegin í 3. mgr. greinarinnar. Sú málsgrein hefur að geyma tæmandi talningu þeirrar vinnu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti, eins og skýrt kemur fram í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 50/1988. Undanþágurnar fela í sér undantekningar frá meginreglu um skattskyldu og ber sem slíkar að skýra þröngt og aldrei rýmri skýringu en orðalag ákvæðanna beinlínis gefa tilefni til.
Þýðing undanþáganna í 3. mgr. 2. gr. vsk-laga er sú að hvorki ber að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þóknun sem sá er þjónustunnar nýtur er krafinn um, né ber að reikna og standa skil á virðisaukaskatti af andvirði slíkrar þjónustu sem látin er í té endurgjaldslaust. Undanþágurnar þýða hins vegar ekki að sá sem undanþegna þjónustu veitir geti keypt virðisaukaskattsskyld aðföng til starfsemi sinnar án greiðslu virðisaukaskatts. Þá fæst virðisaukaskattur af aðföngum ekki endurgreiddur úr ríkissjóði í formi innskatts. Þannig ber sá sem undanþegna þjónustu veitir almennt virðisaukaskatt af aðföngum er varða hina undanþegnu þjónustu.
Samkvæmt 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. telst íþróttastarfsemi undanþegin virðisaukaskatti, svo og leiga á aðstöðu til íþróttastarfsemi, aðgangseyrir að sundstöðum, skíðalyftum, íþróttamótum, íþróttasýningum og heilsuræktarstofum. Öll íþróttastarfsemi er undanþegin samkvæmt ákvæðinu óháð því hverjir reka slíka starfsemi. Í skattframkvæmd hefur kennsla og þjálfun í íþróttum verið talinn þáttur í íþróttastarfsemi og þar með undanþegin virðisaukaskatti. Það er álit ríkisskattstjóra að fjarkennsla í íþróttum yfir internetið, geti fallið undir áðurnefnda undanþágu ef í kennslunni felast viðvarandi samkipti milli nemenda og kennara, eins eða fleiri, þar sem fylgst er með framvindu námsins hjá nemandanum. Miðað við þá málavaxtalýsingu sem er að finna í tölvuskeyti yðar þá er það mat ríkisskattstjóra að sala á aðgangi að áðurnefndri vefsíðu feli ekki sér íþróttakennslu í skilningi 5. tölul. 3. mgr. 2. gr. vsk-laga þar sem hvorki verður séð að sú þjónusta sem í boði er feli í sér bein og viðvarandi samkipti milli nemanda og kennara né að kennari fylgist með framvindu námsins hjá nemandanum. Innheimta ber því virðisaukaskatt af gjaldinu.
Skylda til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð hvílir á hverjum þeim sem í atvinnuskyni eða með sjálfstæðri starfsemi sinni selur eða afhendir vörur eða verðmæti ellegar innir af hendi skattskylda vinnu eða þjónustu, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. vsk-laga. Í 1. mgr. 5. gr kemur fram að aðili skuli ótilkvaddur og eigi síðar en átta dögum áður en starfsemi hefst tilkynna atvinnurekstur sinn eða starfsemi til skráningar hjá skattstjóra þar sem hann er heimilisfastur. Ekki skal skrá aðila ef samanlagðar tekjur hans af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar, þar með talið vegna kaupa varanlegra rekstrarfjármuna. Þó á aðili rétt á skráningu ef hann sýnir fram á að kaup á fjárfestingarvörum standa í beinu sambandi við sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu í atvinnuskyni á síðari rekstrartímabilum, sbr. 5. mgr. 5. gr. Skattstjóri metur það hvort skilyrði fyrir skráningu eru uppfyllt.
Virðingarfyllst
f. h. ríkisskattstjóra
Guðrún Þorleifsdóttir
Guðlaug M Valdemarsdóttir