Dagsetning Tilvísun
24.04.2006 09/06
Frádráttur tafabóta frá söluverði við ákvörðun skattverðs virðisaukaskatts.
Ríkisskattstjóri vísar til fyrirspurnar yðar, dags. 1. febrúar 2006, þar sem þér óskið eftir staðfestingu ríkisskattstjóra á heimild verktaka til að jafna tafabótum á móti skattverði. Fram kemur í fyrirspurninni að um sé að ræða húsfélag sem fékk verktaka til viðgerðar- og viðhaldsvinnu. Tafir hafi orðið á verklokum og hafi verktakinn þurft að greiða tafabætur samtals 750.000 kr. Fjárhæð óútgefinna reikninga hafi numið um það bil 780.000 kr. með virðisaukaskatti og hafi skattverð þeirra verið um 630.000 kr. Kemur fram í fyrirspurninni að ágreiningur sé milli verktaka og verkkaupa um meðferð tafabóta við uppgjör virðisaukaskatts.
Í tilefni af framkominni fyrirspurn skal tekið fram að í mars 1990 voru gefnar út leiðbeiningar af ríkisskattstjóri um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi. Þar kemur fram að krefji verkkaupi verktaka um tafabætur (dagsektir) vegna afhendingardráttar getur verktaki dregið þær frá skattverði ef hann gefur út sölureikning vegna verksins eftir að sannreynt er að afhendingu hefur seinkað. Í skattframkvæmd hefur þannig verið litið á samningsbundnar tafabætur sem afslátt í skattalegu tilliti.
Í 5. tölul. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er kveðið á um að óskilyrtan afslátt veittan við afhendingu hins selda skuli draga frá söluverði við ákvörðun á skattverði, þ.e. því verði sem virðisaukaskattur er reiknaður af. Í sama tölulið er hins vegar jafnframt kveðið á um að ekki verði haldið utan skattverðs aflætti sem háður er skilyrði sem ekki er uppfyllt við afhendingu (reikningsútgáfu).
Í 3. tölul. 5. mgr. 13. gr. laga nr. 50/1988 er kveðið á um heimild seljanda til að draga við uppgjör virðisaukaskatts frá skattskyldri veltu sinni afslátt sem veittur er eftir afhendingu hins selda, enda hafi skilyrði til að veita afsláttinn ekki verið fyrir hendi við afhendinguna. Heimildin er bundin því skilyrði að afslátturinn sé veittur kaupanda sem getur dregið virðisaukaskattinn frá sem innskatt í uppgjöri sínu, þ.e. að kaupandinn hafi með höndum virðisaukaskattsskylda starfsemi og að hið keypta varði þá starfsemi hans.
Miðað við tilgreinda málavexti bar verkaka við útgáfu þess sölureiknings, sem gefinn var út eftir að tafabætur voru fallnar til, að draga fjárhæð bótanna (afsláttarins) frá söluverði. Sölureikningur hefði samkvæmt því átt að vera neikvæður (kredit) um kr. 120.000, auk virðisaukaskatts á þá fjárhæð.
Beðist er velvirðingar á þeim drætti sem orðið hefur á að fyrirspurn yðar væri svarað.
Ríkisskattstjóri